Innlent

Heimilislausir flýja Byrgið og lenda í hrakningum

Forstöðumaður Gistiskýlisins, athvarfs fyrir heimilislausa karlmenn í Reykjavík, segist finna verulega fyrir vandræðum Byrgisins. Mönnum sem leita á náðir Gistiskýlisins hefur fjölgað frá því málefni Byrgisins komust í hámæli og nokkrum sinnum hefur heimilislausum mönnum verið vísað á götuna að undanförnu

Skýrsla Ríkisendurskoðanda um málefni Byrgisins verður kynnt á morgun en þegar er ljóst að fjármálastjórn Byrgisins var ekki sem skyldi en Félagsmálaráðuneytið skrúfaði fyrir fjárframlög fyrir skömmu eftir tilmæli frá Ríkisendurskoðun. Og í kjölfarið fjölgar heimilislausum karlmönnum í Reykjavík. Úrræði fyrir þann hóp eru ekki á hverju strái. Pláss er fyrir 8 karlmenn í heimili á Miklubraut og Gistiskýlið í Reykjavík tekur 16 manns í gistingu. Nokkrum dögum fyrir jól undirrituðu félagsmálaráðherra og borgarstjóri samkomulag um að verja um 140 milljónum króna til heimilis fyrir 10 karlmenn. Ekki er þó ljóst hvenær af því verður.

Jóhann Vísir Gunnarsson og Sævar Cielski eru fastagestir Gistiskýlisins og þeir segja þörfina á úrbætum mikla. Þeir segjast ekki hafa mikla trú á nýlegu samkomulagi milli félagsmálaráðherra og borgarstjóra og benda á að kosningar séu í nánd. Þeir vilja að yfirvöld bregðist við af alvöru og útvegi heimilislausum raunverulegar lausnir sem miði að því að gera heimilislaust fólk að raunverulegum þátttakendum í íslensku þjóðfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×