Innlent

Stórauka á framlög til rannsókna til að koma HÍ í fremstu röð

Hátíðarsal Háskóla Íslands í dag.
Hátíðarsal Háskóla Íslands í dag. MYND/Stöð 2

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands undirrituðu í dag í Hátíðarsal Háskóla Íslands samning um kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands. Samningurinn er til fimm ára, frá og með árinu 2007 til ársins 2011.

Fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu að markmið samningsins sé að tryggja gæði kennslu og rannsókna við Háskólann og stuðla að metnaðarfullri framþróun í starfsemi skólans á samningstímanum. Jafnframt eru með samningnum skapaðar forsendur fyrir því að Háskóli Íslands öðlist viðurkenningu í framtíðinni sem háskóli í fremstu röð í heiminum.

Framlög skólans voru hækkuð um 300 milljónir króna á fjárlögum 2007 í tengslum við samninginn en rannsóknarframlög til skólans munu hækka um 640 milljónir króna árlega á tímabilinu 2008-2011 og hafa þá hækkað um tæpa þrjá milljarða í lok samningstímabilsins, árið 2011. Í langtímaáætlun um útgjöld ríkisins er jafnframt gert ráð fyrir að framlög til háskólastigsins aukist árlega um 3,5 prósent vegna fjölgunar nemenda.

Þetta þýðir samkvæmt menntamálaráðuneytinu að fjárveitingar ríkisins til rannsókna við Háskóla Íslands þrefaldast á samningstímanum. Þá aukast framlög ríkisins til kennslu og rannsókna samtals 75% samanborið við framlög á fjárlögum árið 2006.

Meginmarkmið samningsins er að staðfesta stöðu Háskóla Íslands í fararbroddi íslenskra háskóla, jafnframt því að styrkja stöðu skólans verulega í alþjóðlegu umhverfi háskólamenntunar.

Ætlunin er að stórefla rannsóknatengt framhaldsnám við Háskólann með því að fimmfalda fjölda brautskráðra doktora og tvöfalda fjölda brautskráðra meistaranema á samningstímabilinu. Framboð námskeiða í framhaldsnámi verður aukið, m.a. með auknu samstarfi við erlenda háskóla. Samfara því er stefnt að auknum afköstum í rannsóknum og eflingu á gæðum þeirra. Fjölga á birtingum vísindagreina kennara við Háskóla Íslands í virtum, alþjóðlegum, ritrýndum tímaritum og útgáfu bóka gefnum út hjá virtum bókaútgefendum. Fjárframlög til kaupa á rannsóknatækjum verður einnig aukið til muna.

Einnig á að nýta fjölbreytileika Háskóla Íslands til að efla þverfræðilegar rannsóknir með það að markmiði að skapa nýja þekkingu og fræðasvið og efla tengsl við atvinnu- og þjóðlíf. Áætlað er að starfsemi Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni hefjist fyrir lok 2007. Þar verði frjór vettvangur samstarfs Háskóla Íslands og sprotafyrirtækja, nýsköpunar- og hátæknifyrirtækja, rannsóknastofnana og fleiri skyldra aðila.

Þá er ætlunin að endurskoða skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir í því skyni að efla starfseiningar hans. Samtímis verður stoðþjónusta við kennara og nemendur styrkt til þess að skapa fyrirmyndar námsumhverfi. Lögð er áhersla á að bæta kennslustofur og tæknibúnað, lesaðstöðu, félagsaðstöðu, bókakaup og aðgang að rafrænum tímaritum og gagnasöfnun.

Enn fremur verður unnið að sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands eins og tilefni er til í samræmi við ákvörðun Alþingis.

Til viðbótar við þetta er Háskóla Íslands ætlað að tvöfalda tekjur sínar úr innlendum, norrænum, evrópskum og norðuramerískum samkeppnissjóðum fram til ársins 2011. Þá er auknum framlögum í Rannsóknasjóð Háskólans ætlað að efla doktorsnám og að undirbúa umsóknir til alþjóðlegra samkeppnissjóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×