Innlent

Hestamenn uggandi vegna tíðra slysa

Hestamenn eru uggandi yfir alvarlegum og tíðum slysum á hestamönnum, nú síðast um helgina. Hópur lækna, lögfræðinga og hestamanna verður settur saman til að rýna í orsakir slysanna.

Rösklega fimmtug kona lést við Kaldárselsveg síðastliðinn laugardag, líklega eftir fall af hestbaki. Að minnsta kosti tveir hafa á síðasta ári hlotið alvarlegan mænuskaða og talið er að á síðustu misserum hafi átta manns skaddast á mænu og fleiri en einn hestamaður látist í útreiðartúr.

Taugaskurðlæknir sem fréttastofa ræddi við sagði óvenju grimm og ljót slys á hestamönnum undanfarið árið vera bullandi áhyggjuefni. Sú skoðun hefur heyrst að reiðhjálmar geti við fall af hestbaki valdið alvarlegum mænuskaða en þeir læknar sem fréttastofa ræddi við þvertaka fyrir það. Ekkert bendi til að hjálmar auki hættu á meiðslum á hálsi eða mænuskaða.

Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, tekur undir það. Þetta hafi heyrst í umræðunni og sé álíka og þegar bílbelti hafi verið lögleidd. Þá hafi margir talið að þau væru völd að slysum. Hjálmarnir hafi klárlega bjargað mörgum og í miklu fleiri tilfellum en þau nokkurn tíma valdið slysum.

Hestamannafélögin hyggjast setja saman vinnuhóp lækna, lögfræðinga og hestamanna til að greina orsakir þeirra alvarlegu slysa sem orðið hafa. Sömuleiðis er hinn landskunni hestamaður Sigurbjörn Bárðarson með í burðarliðnum myndband um það sem ber að varast fyrir nýliða í hestamennsku. Haraldur segir menn engan grun hafa um hvað valdi þessum alvarlegu slysum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×