Innlent

Önnur árásarkvennanna yfirheyrð í Eyjum

Búið er að yfirheyra aðra konuna sem réðst á 28 ára gamla konu fyrir utan skemmtistaðinn Sólon síðastliðna helgi. Konan var kölluð til skýrslutöku í Eyjum í gær en sleppt að því loknu því ekki þótti ástæða til að handtaka hana vegna málsins. Konan sem ráðist var á hefur legið á spítala í fimm daga og gengist undir aðgerð á eyra.

Tuttugu og átta ára kona varð fyrir hrottafenginni líkamsárás tveggja kvenna um tvítugt, í biðröð við skemmtistaðinn Sólon í miðborginni síðastliðið laugardagskvöld. Hún var dregin á hárinu eftir gangstéttinni, sparkað í hana og bitið var stórt stykki af eyra hennar. Konan var í biðröð fyrir utan skemmtistaðinn Sólon með vinkonu sinni og frænku. Önnur árásarkvennanna kastaði bjórflösku í frænku konunnar. Þegar konan gerði athugasemd við það, var ráðist á hana. Konan þurfti að gangast undir aðgerð á eyra og hefur legið á spítala í fimm daga.

Sigurbjörn Víðir Eggertsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir að árásárkonurnar tvær hafi farið til Eyja fyrir helgina. Lögreglan í Eyjum yfirheyrði aðra þeirra í gær en henni var svo sleppt að því loknu. Óvíst er hvort hin verði yfirheyrð í Eyjum en Sigurbjörn segir að hún verði þá yfirheyrð strax eftir helgi. Hann segir að ekki hafi þótt ástæða til að handtaka konurnar í Eyjum og flytja þær til Reykjavíkur vegna málsins. Enn standi yfir rannsókn og búið sé að ná til allra vitna og þeirra sem koma að málinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×