Innlent

Ljósmóðirin ekki fyllilega sátt við afkvæmið

Eiríkur Tómasson lagaprófessor hafði milligöngu um að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hófu stjórnarmyndunarviðræður vorið 1995, þegar Sjálfstæðisflokkurinn sleit stjórnarsamstarfi við Alþýðuflokkinn og myndaði stjórn með Framsóknarflokknum. Eiríki hugnast hins vegar ekki stjórnarhættir þeirra, seinni hluta samstarfsins.

Halldór Ásgrímssonupplýsti það í hádegisviðtalinu á gamlársdag, hvernig það bar til að hann og Davíð Oddsson fóru að ræða stjórnarmyndun, sem leiddi til þess að Sjálfstæðismenn slitu stjórnarsamstarfi við Alþýðuflokkinn eftir kosningar 1995. Halldór sagði að sameiginlegur kunningi hans og Davíðs, Eiríkur Tómasson, hafi komið skilaboðum á milli sem leiddu til þess að Davíð og hann áttu fund saman.

Eiríkur staðfestir þetta. Hann segist hafa borið boð á mili og þeir síðan átt fund áður en stjórnin var formlega mynduð.

Eiríkur segir að það hafi komið sér á óvart að Davíð og Halldór þekktust ekki, þrátt fyrir að hafa setið saman á alþingi í fjögur ár.

Á þessum árum voru Eiríkur og Davíð briddsfélagar og spiluðu bridds einu sinni í viku, en síðan hefur slitnað upp úr þeim kunningsskap. Eiríkur vill ekki gefa upp hvort það var Davíð eða Halldór sem átti frumkvæðið að því að gera hann að milligöngumanni. Hann vilji halda trúnað við þá báða, en muni upplýsa það og ýmistlegt annað tengt viðræðunum seinna, sögunnar vegna.

Eiríkur segir að ríkisstjórn Davíðs og Halldórs hafi í upphafi gott og komið á stöðugleika í þjóðfélaginu, en síðan hafi sigið á ógæfuhliðina. Hann segir að sér hafi ekki líkað stjórnunarhættir þeirra beggja í seinni tíð, en nú væru komnir nýjir menn til forystu í báðum flokkum og vonandi þýddi það betri tíð.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×