Lífið

Maður drekkir sorgum, kona drekkir bíl.

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Flutningabíllinn marar í höfninni
Flutningabíllinn marar í höfninni

Einn bjór enn kostaði breskan karlmann á þrítugsaldri aleiguna.

Jason Wilson, 24 ára gamall maður frá norður Englandi vildi vera aðeins lengur á kránni. Kærastan hans vildi fara heim.

Þetta var meira en kærastan, Emma Thomson, þoldi. Hún fór heim og tróð öllum eigum kærastans, frá geisladiskum til fatnaðar, í skottið á flutningabíl vinnuveitanda hans. Þá keyrði hún bílinn niður að höfninni í Whitehaven, heimabæ þeirra, og sökkti honum. Frá þessu greinir á vef BBC.

Parið á tvö börn saman og ætlaði að gifta sig í ágúst. Fyrirhuguðu brúðkaupi þeirra hefur þó, skiljanlega, verið aflýst.

Þau höfðu nýlega lokið við að kaupa hringa og brúðarkjól og innan við sólarhring áður en til rifrildisins kom höfðu þau bókað 300 þúsund króna brúðkaupsferð til Karíbahafsins.

,,Ég get ekki búið með svona skapstórri manneskju, það getur enginn." sagði Wilson, sem dvelur hjá ættingjum.

Það var yfirmaður Wilson sem sagði honum frá atburðinum eftir að fólk, sem sá bílinn á floti í höfninni hafði samband við fyrirtækið. Wilson sagði að yfirmaður hans hefði verið ,,ótrúlega skilningsríkur" varðandi tapið á flutningabílnum sem kostaði um tvær milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.