Lífið

Mamma Amy sendir henni opið bréf

Amy á rölti um stræti Lundúna á nærklæðum einum fata.
Amy á rölti um stræti Lundúna á nærklæðum einum fata.

Söngkonan Amy Winehouse hefur verið í sviðsljósinu síðustu mánuði fyrir flest annað en góðan söng. Mikið hefur verið fjallað um gjálífið á henni og eiginmanninum og nú nýverið aflýsti hún tónleikaferð að læknisráði. Mamma Amy hefur skiljanlega áhyggjur af stelpunni sinni en sambandið á milli mæðganna virðist ekki betra en svo að Janis Winehouse sá þann kost vænstan að láta birta opið bréf til Amy í breska götublaðinu News of the world.

Í bréfinu hvetur mamman Amy til að taka upp símann, hringja í mömmu sína og segja henni hvað ami að. „Skjótfengin frægð hefur greinilega borið þig ofurliði og ruglað þig í ríminu. Ég vill fá þig aftur," segir mamman meðal annars. Hún segist vonast til þess að bréfið verði til þess að Amy snúi frá villu síns vegar og komi aftur í faðm fjölskyldunnar.

„Hvar sem þú ert og hvenær sem er. Hvað sem þú þarft þá erum við til staðar, ég vona að þú vitir það. Það var skelfilegt að sjá myndirnar af þér í blöðunum um daginn ráfandi um miðborg Lundúna í gnístandi kulda á nærfötunum," hélt mamman áfram. Hún vék einnig að eiginmanni Amy, Blake Fielder-Civil en fjölmiðlar í Bretlandi hafa verið duglegir að kenna honum um ófarir Amy. „Hann er kannski ekki uppáhalds persónan mín í veröldinni en ef ykkur tveimur er ætlað að vera saman, þá verður svo að vera."

Það er þó ekki allt á niðurleið hjá Amy Winehouse því þrátt fyrir vandræði í einkalífinu, og kannski vegna þeirra, hefur platan hennar rokselst og var hún á dögunum tilnefnd til sex Grammy verðlauna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.