Lífið

Útvarpsstjörnur á skólabekk

Nóg að gera hjá Heimi
Nóg að gera hjá Heimi MYND/365

Morgunhaninn Heimir Karlsson sem flestir kannast við úr Íslandi í bítið og eins úr íþróttaþættinum 442 er sestur á skólabekk ásamt kollega sínum Kristjáni Frosta Logasyni sem lengi hefur verið útvarpsmaður á X-inu. Þeir félagar skráðu sig báðir í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands í haust og hafa byrjað önnina með miklum trukki.

„Ég hef lengi ætlað mér að gera þetta en nú var rétti tíminn," segir Heimir. „Ég byrjaði í viðskiptafræði á sínum tíma en hætti fljótlega af því mér fannst hún alveg hrútleiðinleg. Ég tók líka kúrsa í umhverfisfræðum í Bretlandi en svo tók fótboltinn yfir," segir Heimir sem ekki hefur lokið BA-prófi. „Stjórnmálafræðin hefur alltaf heillað mig og þá sérstaklega alþjóðastjórnmál og leggst námið mjög vel í mig. Það er gott að láta hrista aðeins upp í sér."

Frosti stundar félagslífið í háskólanum af kappiMYND/365

Heimir mun þó ekkert slaka á í vinnunni og segir að það verði að ráðast hversu langt hann kemst í náminu. Hann á auk þess stóra fjölskyldu og stundar golfið af kappi svo ljóst er að hann hefur nóg fyrir stafni. „Ég set vinnuna og fjölskylduna í forgang og svo verður hitt að ráðast," segir Heimir.

Félagi hans Frosti, oft kenndur við Mínus, virðist þó ekki vera eins bundinn í báða skó en hann stundar víst félagslífið af kappi og hefur verið duglegur að mæta í vísindaferðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.