Innlent

Lyklaskipti í ráðuneytum

MYND/Stöð 2

Nýir ráðherrar úr Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum eru þessa stundina að taka við lyklavöldum í sínum ráðuneytum úr hendi forvera sinna.

Þannig tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir við lyklinum að utanríkisráðuneytinu úr hendi Valgerðar Sverrisdóttur, fráfarandi utanríkisráðherra, nú á fjórða tímanum. Sagði Ingibjörg Sólrún um leið og hún tók við hamingjuóskum frá Valgerði að hún tæki við góðu búi.

Sams konar athafnir fara fram í ráðuneytum iðnaðarmála, umhverfismála, samgöngumála, heilbrigðismála, félagsmála, landbúnaðar og viðskipta.

Einar Kristinn Guðfinnsson tók við lyklum að landbúnaðarráðuneytinu úr höndum Guðna Ágústssonar sem gegnt hefur starfi landbúnaðarráðherra í átta ár. Einar verður með þessu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þá tó Björgvin G. Sigurðsson við lyklavöldum í viðskiptaráðuneytinu af Jóni Sigurðssyni og sama gerði Össur Skarphéðinsson í iðnaðarráðuneytinu. Þeir Björgvin og Össur deila fyrst um sinn skrifstofum því iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur heyrt undir einn mann í allmörg ár.

Enn fremur tók Kristján L. Möller við lyklavöldum í samgönguráðuneytinu og þá sneri Jóhanna Sigurðardóttir aftur í félagsmálaráðuneytið og tók við stjórnartaumunum af Magnúsi Stefánssyni.

Þórunn Sveinbjarnardóttir tók svo við lyklum að umhverfisráðuneytinu úr höndum Jónínu Bjartmarz en lyklarnir eru kippu með rjúpnakló sem Össur Skarphéðinsson lét búa til fyrir 13 árum.

Í heilbrigðisráðuneytinu tók Guðlaugur Þór Þórðarson svo við lyklunum af Siv Friðleifsdóttur, en Guðlaugur er eini nýi ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×