Lífið

Paris Hilton dæmd í 45 daga fangelsi

Paris Hilton fyrir utan dómshúsið í Los Angeles í gær
Paris Hilton fyrir utan dómshúsið í Los Angeles í gær MYND/AFP

Paris Hilton var dæmd til 45 daga fangelsisvistar í Los Angeles í dag fyrir að hunsa refsingarskilmála í kjölfar handtöku í Hollywood fyrir ölvunarakstur í september í fyrra. Þá mældist alkóhólmagn í blóði hennar yfir leyfilegum mörkum. Henni var þá gert skylt að sækja áfengisnámskeið, sem hún mætti svo ekki á.

Foreldrar Parisar, Rick og Kathy Hilton, voru viðstaddir réttarhaldið, samkvæmt frétt frá AP. Móðir hennar greip andann á lofti þegar dómarinn las upp úrskurðinn og lögmaður hennar, Howard Weitzman, sagði niðurstöðuna fáránlega og tilhæfulausa. Hér væri verið að ráðast gegn Paris Hilton persónulega, vegna þess hver hún væri. Málinu yrði áfrýjað.

Paris á að mæta 5. júní í afplánun.

Þrír lögreglumenn komu fyrir réttinn, sem allir höfðu stöðvað hana við akstur. Sá fyrsti greindi frá handtökunni fyrir ölvunaraksturinn í fyrra og hinir tveir höfðu greint henni frá því að hún hefði ekki gild ökuréttindi.

Hilton sagðist hafa talið að hún hefði aðeins misst skírteinið í 30 daga. Hún hefði ekki verið akandi ef hún hafði haldið annað. Hún baðst afsökunar og sagðist héreftir ætla að fara að tilmælum lögreglunnar.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.