Lífið

Lýsir eftir áfallahjálp

Rebekka Rán Samper líkir lífsgöngunni við fjallgöngu. Henni var að opnast fjallasýn, og segir hún það eðlilegt að fá snert af lofthræðslu við slíkar aðstæður.fréttablaðið/Anton
Rebekka Rán Samper líkir lífsgöngunni við fjallgöngu. Henni var að opnast fjallasýn, og segir hún það eðlilegt að fá snert af lofthræðslu við slíkar aðstæður.fréttablaðið/Anton
Rebekka Rán Samper er fertug í dag. Á milli þess að sinna stöðu markaðsstjóra Bifrastar, vinna að doktorsritgerð sinni og myndlistinni hefur henni tekist að finna tíma til veisluhalda. Henni þykir áfanginn þó skrýtinn. „Sérstaklega af því að maður man svo vel eftir foreldrum sínum á þessum aldri,“ sagði Rebekka. „Að mínum dómi var þetta hallæristímabil í klæðaburði föður míns, þar sem hann gekk um með breitt bindi, í fjólubláum, teinóttum jakkafötum og með mjög síða barta. Þetta þótti algjört æði á sínum tíma, en myndirnar tala sínu máli í dag,“ sagði Rebekka og hló við. „Ég er svona að velta því fyrir mér hvort ég sé sjálf á þessu stigi en geri mér bara ekki grein fyrir því,“ bætti hún við.

Rebekku þykir fertugsafmælið hafa komið aftan að sér. „Mér finnst að það ætti að vera í boði einhvers konar áfallahjálp,“ segir hún sposk. „Mér finnst þetta vera svolítið eins og maður sé búinn að vera að ganga upp á fjall, sem er lífið. Fyrst um sinn, þegar maður er að fara upp hlíðina, er maður með svo lítið útsýni. Maður spíttar bara upp fjallið af miklum móð. Svo kemur maður allt í einu upp, þar sem ég stend í dag, og fær þetta útsýni yfir farinn veg og fram á veginn. Ég held það væri hreinlega óeðlilegt ef maður fengi ekki snert af lofthræðslu,“ sagði hún hlæjandi. „Maður gerir sér skynsama hugmynd um hvað lífið er stutt og hversu skammt er eftir. Ég tek það fram að ég er ekki á grafarbakkanum,“ bætti hún við, „en maður sér hlutina einhvern veginn í skýrara ljósi.“

Rebekka hélt upp á afmælið sitt í gær með hund-rað manna veislu. „Það var annaðhvort að flýja land eða gera þetta almennilega,“ sagði hún. Aðspurð hvort hún hafi einhverjar hefðir í heiðri á afmælisdögum, segir Rebekka það aðallega vera kvíðaköst. „Ég á rosalega bágt með að eiga einhvern dag svona prívat og persónulega og verða aðalpunktur athyglinnar. Ég veit að það kemur vinum mínum samt örugglega spánskt fyrir sjónir, því ég er í eðli mínu ekki sérstaklega innhverf manneskja,“ sagði hún og hló. „Eftir að ég eignaðist barnið mitt hef ég bara reynt að verja deginum með honum, og svo fer ég iðulega út að borða, bara ekki alltaf með hundrað manns,“ bætti hún við.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.