Innlent

Fagnar útrás á sviði vistvænnar orku

Aðalfundur Samorku, sem eru samtök orku- og veitufyrirtækja, fagnar útrás íslenskra fyrirtækja á sviði vistvænnar orku og segir að með frumkvöðlastarfsemi muni Íslendingar leggja sitt af mörkum í einu mikilvægasta verkefni samtímans sem sé baráttan við hlýnun lofthjúps jarðar.

Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna í morgun er vísað í nýja skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál þar sem fram komi að vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda og vandinn sem því fylgi sé fyrst og fremst til kominn vegna brennslu á kolum, olíu og gasi.

Ísland hafi hins vegar sérstöðu þar sem um þrír fjórðu heildarorkunýtingar sé fenginn frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur og rannsóknarstofnanir ýmiss konar hafi áratugum saman verið í fararbroddi við mótun þekkingar á hagnýtingu endurnýjanlegra orkulinda og því fagni Samorka aukinni útrás íslenskrar þekkingar á þessu sviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×