Lífið

Veðramót rassskellt á Eddunni

Guðný Halldórsdóttir leikstjóri er ekki sátt við útkomu verðlaunanna.
Guðný Halldórsdóttir leikstjóri er ekki sátt við útkomu verðlaunanna.
,,Ég fékk bara góða rassskellingu, það er það eina sem hægt er að segja um þetta," sagði Guðný Halldórsdóttir leikstjóri þegar Vísir leitaði viðbragða hennar við Edduverðlaununum í gær. Mynd Guðnýjar, Veðramót, hlaut flestar tilnefningar, eða ellefu talsins. Hún hlaut einungis ein verðlaun, fyrir leik Jörundar Ragnarssonar í aukahlutverki.

,,Nei ég er nú ekki sátt við þá niðurstöðu," sagði Guðný, sem þótti hlutur kvenna á hátíðinni heldur rýr. ,,Það kom ein kona þarna upp og hún var að taka við verðlaunum sem leikkona í aðalhlutverki. Þetta er greinilega bara karlaveröldin sem við búum í."

,,Foreldrar unnu bara," segir Guðný, en kvikmyndin Foreldrar var ótvíræður sigurvegari hátíðarinnar og hirti verðlaun í öllum flokkum sem hún var tilnefnd í, þar á meðal fyrir bestu myndina.

Guðný segir að kannski hafi myndin bara ekki verið nógu góð. Veðramót hlaut fádæma lof gagnrýnenda þegar hún var frumsýnd, og kom mörgum því á óvart að hún skyldi ekki vinna til fleiri verðlauna. ,,Jú, jú, gagnrýnendum þótti myndin góð en bransanum fannst þetta vont," sagði Guðný.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.