Lífið

Halla í heimspressunni

Halla Vilhjálmsdóttir. Fréttir um stefnumót leikkonunnar og Jude Law hefur farið eins og eldur í sinu um netið.
Halla Vilhjálmsdóttir. Fréttir um stefnumót leikkonunnar og Jude Law hefur farið eins og eldur í sinu um netið.

Breska götublaðið The Sun birti í gær frétt um rómantískt stefnumót breska leikarans Jude Law og íslensku leikkonunnar Höllu Vilhjálmsdóttur á föstudagskvöldið síðasta.

„Seems like an Ice Girl, Jude," er fyrisögnin á frétt The Sun en Fréttablaðið greindi frá kynnum Höllu og Law á mánudaginn. Þar kom fram, rétt eins og í frétt The Sun í gær, að Halla og Law snæddu kvöldverð á Domo og skemmtu sér svo á Sirkus. Fréttin um Höllu og Law er fremst í svokölluðum Showbiz-dálki sem er með þeim mest lesna á vefsíðu blaðsins. Þar má einnig sjá myndasýningu með myndum af Höllu en The Sun segir íslensku leikkonuna vera menntaða frá breska leiklistarskólanum í Guildford.

Fréttablaðið hafði samband við Gordon Smart, aðstoðarritstjóra afþreyingardeildar The Sun, sem upplýsti að blaðafulltrúi Jude Law hefði hringt og sagt Jude og Höllu ekki vera par. „Ég gat hins vegar ekki skilið hann betur en svo að þau væru góðir vinir," sagði Smart í samtali við Fréttablaðið. „Og ég er jafnframt viss um að blaðafulltrúinn hafi ekki talað við Law þar sem hann er floginn út til Los Angeles."



Jude Law fær sumstaðar kaldar kveðjur frá blaðamönnum sem telja hann hinn mesta flagara.

Aðrir vefmiðlar tóku fréttina upp í gær og mátti sjá fyrirsagnir á borð við „Jude's New Love" og „Ice queen raises Jude's temperature?". Sumir miðlanna eru reyndar ekki par hrifnir af Jude og framkomu hans gagnvart ástkonum sínum og óskar blaðamaður megastar.co.uk Höllu góðs gengis með kvennabósann. Á huldu hefur legið hvar og hvenær Halla og Jude Law hittust fyrst en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins munu þau hafa kynnst á 101 Hótel á fimmtudaginn í síðustu viku.

 

Einar Bárðarson er sannfærður um að Halla eigi ekki eftir að láta þetta litla fjölmiðlafár á sig fá.

„Ég myndi ekki telja að umfjöllun The Sun væri slæm fyrir Höllu og það er vel hægt að nýta sér svona hluti, ferlinum til framdráttar þótt Halla eigi eflaust ekki eftir að gera það," segir Einar Bárðarson, sem er eldri en tvævetra í þessum bransa og hefur margoft þurft að koma skjólstæðingum sínum á framfæri við fjölmiðla.

 

Frétt The Sun. Stefnumóti Höllu Vilhjálmsdóttur og Jude Law voru gerð góð skil.

„Hugsanlega er þetta ekki frétt sem hann eða hún vill en þetta er ekki vont frá mínum sjónarhóli," bætir umboðsmaðurinn við. Hann segir ógjörning að fara leynt með svona stefnumót við jafn frægan mann og Law. „Og ef þú vilt það þá ferðu ekki á opinberan stað," segir Einar. Hann telur þó að Halla eigi eftir að takast á við þetta af stakri snilld. „Hún er dugleg og klár stelpa."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.