Íslenski boltinn

Blikar höfðu betur í grannaslagnum

Mynd/Rósa

Breiðablik, Keflavík og Fylkir urðu í kvöld síðustu liðin til að tryggja sér sæti í fjórðungsúrslitum Visa-bikarsins í knattspyrnu. Breiðablik lagði granna sína í HK 3-1 eftir framlengdan leik, Fylkir lagði Þór á Akureyri 4-1 og Keflvíkingar lögðu Þróttara 1-0 á Valbjarnarvelli.

Sigurbjörn Hafþórsson skoraði sigurmark Keflvíkinga gegn Þrótti á Valbjarnarvelli og tryggði bikarmeisturunum sæti í 8-liða úrslitunum. Fylkir átti nokkuð náðugan dag norður á Akureyri og vann liðið sannfærandi sigur á Þórsurum. Valur Fannar Gíslason, Andrés Már Jóhannesson, Víðir Leifsson og Christian Christiansen skoruðu mörk Árbæinga, en Ingi Heimisson svaraði fyrir norðanmenn.

Á Kópavogsvelli komust HK-menn yfir gegn Breiðablik með marki Kristjáns Ara Halldórssonar í fyrri hálfleik, en varamaðurinn Kristinn Steindórsson jafnaði í blálokin fyrir þá grænklæddu og því varð að framlengja. Í framlengingunni reyndust svo Blikar sterkari þar sem Gunnar Örn Jónsson og Prince Rajcomar tryggðu liðinu sæti í 8-liða úrslitunum.

Á föstudaginn verður dregið um hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum karla og undanúrslitum kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×