Innlent

Ein æðstu verðlaun rússneska lýðveldisins

Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands, tók í gær við Alheimsorkuverðlaununum, Global Energy International Prize, fyrir rannsóknir sínar í orkumálum, ekki síst vetnisrannsóknir.

Verðlaunin voru afhent á stórri efnahagsráðstefnu í Pétursborg, heimaborg Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta, en Þorsteinn tók við verðlaununum úr höndum hans. Alheimsorkuverðlaunin eru ein æðsta viðurkenning rússneska lýðveldisins fyrir vísindarannsóknir og er þeim ætlað að styðja alþjóðlega samvinnu við lausn brýnustu orkuvandamála samtímans.

Þorsteinn Ingi er einn þriggja verðlaunahafa í ár. Hinir eru breski vísindamaðurinn Goeffrey Hewitt og rússneski vísindamaðurinn Vladímír Nakarjakow og skipta þeir með sér rúmum 75 milljónum króna í verðlaunafé.

Þorsteinn Ingi sagði meðal annars í þakkarræðu sinni að hefðbundin orkunotkun heimsins skildi eftir fótspor kolunar umhverfisins sem erfitt yrði að má. Þar væri mikilvægast að draga úr kolefni í eldsneytisnotkun.

„Framlag mitt - og miklu fremur míns lands - til þess að draga úr kolefnismengun hefur verið að taka í notkun æ stærra hlutfall ndurnýjanlegra orkulinda landsins. Nú er hlutfall endurnýjanlegrar orku um 72 prósent af orkunotkun Íslands. Framleiðsla og notkun vetnis sem orkubera á Íslandi getur orðið fyrirmynd fyrir heiminn. Stefna okkar um að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis til nýrra orkubera krefst þess að við aukum við færni okkar á sviði vetnistækni," sagði Þorsteinn Ingi.

Þorsteinn Ingi er nýráðinn forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem tekur til starfa í ágúst þegar Iðntæknistofnun og Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins sameinast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×