Lífið

Skálað fyrir prinsessu

Margrét hélt heljarinnar afmælisveislu um síðustu helgi.
Margrét hélt heljarinnar afmælisveislu um síðustu helgi. MYND/Valli

Margrét Sveinbjörnsdóttir, ráðgjafi hjá AP-almannatengslum og lúðurþeytari Hins konunglega fjelags, er fertug í dag.

„Ég hélt heljarinnar partí á laugardaginn þar sem ég bauð vinum mínum og ættingjum. Það var mjög gleðilegt að það skyldi fæðast lítil prinsessa þennan dag,“ segir Margrét og á þar við dóttur Friðriks, krónprins Dana, og Mary prinsessu. „Veislustjóri var kammer­jómfrú Hins konunglega fjelags, Eyrún Ingadóttir, sem sá til þess að þetta var allt í mjög konunglegum stíl. Hún krafðist þess að í hvert skipti sem var skálað fyrir afmælisbarninu yrði skálað líka fyrir prinsessunni.“

Margét segir allt stefna í það að prinsessan verði nafna hennar, því til stendur að skíra hana í höfuðið á ömmu sinni, Margréti Þórhildi Danadrottningu. Hún býst við að þar muni vaxa úr grasi efnileg stúlka. „Það sést ekki mikið í hana á þessum myndum sem ég hef séð en ef hún líkist foreldrum sínum hlýtur þetta að vera myndarbarn.“

 

nýja prinsessan Mary heldur á nýju prinsessunni sem verður líklega skírð Margrét. fréttablaðið/gettyimages

Í afmælisveislunni á laugardaginn fékk Margrét margar góðar gjafir, þar á meðal nokkrar ljóðabækur. „Mér þótti vænst um að fá eldgamla myndskreytta bók sem heitir Sálin hans Jóns míns. Hún hefur ekkert með hljómsveitina að gera heldur hefur hún að geyma myndskreytt kvæði Davíðs Stefánssonar, sem amma mín og nafna kenndi mér utan að þegar ég var barn. Mér er sagt að ég hafi farið með það með miklum tilþrifum þegar ég var smástelpa,“ segir hún og hlær.

Margrét, sem býr með blaðamanninum Auðuni Arnórssyni og á með honum soninn Odd, ætlar að bjóða vinnufélögum sínum upp á eitthvert góðgæti á afmælisdeginum sjálfum. Hvort blásið verði í konunglega lúðra í tilefni dagsins verður aftur á móti að koma í ljós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.