Söngkonan Beyonce hefur hætt við fyrirhugaða tónleika í Malasíu einungis nokkrum vikum eftir að kollegi hennar Gwen Stefani féllst á að hylja líkama sinn nánast frá toppi til táar þegar hún hélt tónleika í landinu. Beyonce hefur í staðin ákveðið að halda tónleika í Jakarta í Indónesíu og munu þeir fara fram þann fyrsta nóvember næstkomandi.
Razlan Ahmad Razali, skipuleggjandi tónleikanna í Malasíu, segist vonsvikinn. „Þó að múslimatrú sé ríkjandi í Indónesíu þá eru reglurnar þar ekki eins strangar og hér. Í Indónesíu getur Beyonce gert það sem hún vill á sviðinu en það getur hún ekki hér. "
Yfirvöld í Malasíu hafa gefið út leiðbeiningar um hvernig kvenkynslistamaður skal vera klæddur og koma fram á sviði. Samkvæmt þeim skal kona klæðast fötum sem ná vel upp fyrir brjóst og niður fyrir hné og eins skal hylja axlir. Þá má hún ekki hoppa um og öskra á sviðinu og ekki má faðmast og kyssast.

Í fyrra var stelpuhljómsveitin The Pussycat Dolls fordæmd af yfirvöldum í landinu fyrir að fara ekki að tilmælum þeirra og voru tónleikahaldararnir sektaðir fyrir að leyfa ögrandi klæðnað og flutning.