Lífið

Nauðsynlegt að breyta til

Við flutningana til Amsterdam bætist bók um eineygða kisann, leikverk um baðstofu og kvikmyndahandrit eftir Forðist okkur.
Við flutningana til Amsterdam bætist bók um eineygða kisann, leikverk um baðstofu og kvikmyndahandrit eftir Forðist okkur.

Hugleikur Dagsson hyggst segja skilið við Íslendinga og Ísland í bili. Hann ætlar að flytjast búferlum til Amsterdam í Hollandi í október ásamt kærustu sinni Hrafnhildi Halldórsdóttur og veit ekki hvenær hann snýr tilbaka.

„Mér finnst eitthvað orðið svo erfitt að vinna hérna á Íslandi og ég þarf eiginlega að fara til Amsterdam til að komast í annað umhverfi,“ segir Hugleikur og er hvergi banginn þótt að samlandar hans verði þá að vera án hárbeittrar ádeilu höfundarins á íslenskt þjóðfélag. „Einhver annar verður bara að halda á kyndlinum,“ segir Hugleikur sem hefur um árabil verið eitt vinsælasta skáld þjóðarinnar.

Hugleikur situr ekki auðum höndum því hann er að klára bók um Eineygða kisann. Að þessu sinni er það bókin Leyndarmálið sem fær á baukinn en hún hefur notið gríðarlegra vinsælda um allan heim og nú stendur fyrir þrifum að talsetja dvd-útgáfuna á íslensku. „Þeir hefðu þess vegna getað skrifað: „Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig,“ haft bókina eina síðu og látið Megas fá einhvern aur,“ útskýrir Hugleikur en von er á þessu ævintýri Eineygða kisans í september.

Hugleikur er með fleiri járn í eldinum og segist raunar alltaf finna sér eitthvað að gera. Hann kappkostar við að leggja lokahönd á leikverk sem sett verður upp í Þjóðleikhúsinu eftir áramót. Verkið hefur hlotið nafnið Baðstofan og gerist í slíkum húsakynnum á 18.öld en það segir frá mannlegum og ómannlegum samskiptum þar. Stefán Jónsson leikstýrir verkinu en þetta er þriðja verk höfundarins sem Stefán setur upp, hin voru Legið og Forðist okkur.

Síðast en ekki síst greindi Hugleikur frá því í viðtali við Iceland Review að hann væri að skrifa kvikmyndahandrit eftir bók sinni Forðist okkur. Fram kemur í viðtalinu að það sé kvikmyndafyrirtæki Baltasars Kormáks, Blueeyes, sem sjái um framleiðsluna en Hugleikur gat lítið annað tjáð sig um framhaldið. „Þetta er í bígerð en meira er ekki hægt að segja að svo stöddu,“ segir Hugleikur






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.