Lífið

Skemmti sér með þýskri snót

Hjartaknúsarinn Jude Law er ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum.
Hjartaknúsarinn Jude Law er ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum.

Leikarinn og hjartaknúsarinn Jude Law er ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum því nýjasta vinkona hans er þýska fyrirsætan og leikkonan Susan Hoecke.

Um síðustu helgi sást til Law og Hoecke úti á lífinu í Berlín eftir að þau höfðu snætt saman rómantískan kvöldverð. Yfirgáfu þau hótelið sem Law dvaldi á í sameiningu daginn eftir og virtist fara vel á með þeim.

Susan vill þó ekki meina að þau séu kærustupar heldur hafi þau eingöngu verið góðir vinir undanfarin tvö ár.

Stutt er síðan Law var orðaður við leikkonuna Cameron Diaz og þau sögð á leiðinni í rómantíska ferð til Hawaii. Þangað fór Diaz jafnan með þáverandi kærasta sínum, popparanum Justin Timberlake.

Law og Diaz kynntust við tökur á myndinni The Holiday og fóru í kjölfarið á nokkur stefnumót. Miðað við nýjustu fregnir af hinum kvensama Law er þó allsendis óvíst að samband hans við Diaz eigi sér nokkra framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.