Lífið

Tortímandinn gerist umhverfisvænn

Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri Kaliforníu hyggst breyta Hummerbílum sínum til að keyra á lífdíseli.

Tortímandinn fyrrverandi var gestur í sjónvarpsþættinum Pimp My Ride á MTV í gær. Þar komu bifvélavirkjar þáttarins fyrir áttahundruð hestafla lífdísel vél í "65 árgerð af Chevy Impala. Svo hrifinn var ríkisstjórinn af breytingunni að hann hefur beðið bifvélavirkjana um sömu meðferð fyrir Hummerinn sinn.

"Ég vil þakka MTV og aðstandendum Pimp My Ride fyrir að vekja athygli á mikilvægi vistvæns eldsneytis og baráttunni gegn hlýnun andrúmsloftsins. Ég hef mikla trú á þeim möguleikum til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda sem felast í því að keyra bifreiðar á lífdíseli." sagði Schwarzenegger.

Ríkisstjórinn er mikill aðdáandi Hummer jeppa, en það var hann sem sannfærði General Motors bílaframleiðandann um að framleiða notendaútgáfu af herbílnum.

Umhverfisverndarsinnar hafa gagnrýnt ríkisstjórann fyrir Hummerflotann sem losar þrisvar sinnum meira koltvíoxíð en hefðbundnir bílar. Bensínþyrst tryllitæki ríkisstjórans þykja einnig óheppileg þar sem Kaliforníuríki stendur í málaferlum gegn helstu bílaframleiðendum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.