Lífið

Sigrar og sorgir Britney Spears

Júlía Magrét Alexandersson skrifar
Í upphafi Britney átti sviðið við lok síðustu aldar og var  sögð prinsessa poppsins.
Í upphafi Britney átti sviðið við lok síðustu aldar og var sögð prinsessa poppsins.
Fyrir fimm árum útnefndi Forbes-tímaritið söngkonuna Britney Spears valdamestu manneskjuna í afþreyingariðnaðinum. Og ekki að undra.

Fyrstu fjórar sólóskífurnar höfðu rokið út og nafn hennar og andlit voru greypt í öll helstu dagblöð og tímarit. Velgengnin var lygileg. Og sú Britney-bylgja sem ungstirnið hratt af stað var af þeirri stærðargráðu sem aðeins stjörnur á borð við Madonna, Michael Jackson og Wham höfðu áður ýtt úr vör.

Hversu vel sem fólki líkar við tónlist hennar er það óumdeilanlegt að stúlkan er undrabarn. Aðstæður hafa hins vegar hagað því þannig að í dag er nafn hennar ekki tengt yfirburðahæfileikum heldur yfirburðaáföllum, jafnt í einkalífinu sem og með nýjustu frammistöðunni. Hún er þó ekki fyrsta undrabarnið til að „djamma" frá sér ferilinn því sjálfur Amadeus Mozart lifði um efni fram og málaði sig út í horn.

Justin Timberlake hefur yfirleitt verið sagður sá sem Britney elskar enn. Líf hennar tók stakkaskiptum þegar þau hættu saman.MYND/Getty Images
Frá mjólkurveldinu Kentwood til Walt Disney

Britney Spears, fædd 2. desember 1982, er smábæjarstelpa. Fjölskyldan fluttist úr litlum bæ til annars enn minni, Kentwood, þegar Britney var ung að árum. Helsta stolt bæjarins, fyrir utan Britney að sjálfsögðu, er heilsusamlegt vatn bæjarins sem og mjólkurvörur þess.

Eins og títt er um amerískar stjörnur í dag voru það foreldrar Britney sem eygðu stjörnu í afkvæminu og komu henni í áheyrnarprufu. Þá hafði hún bæði sýnt mikla hæfileika í fimleikum sem og í tónlist og aðeins átta ára gamalli var henni skutlað í áheyrnarprufu fyrir nýjan sjónvarpsþátt Disney-sjónvarpsstöðvarinnar, The New Mickey Mouse Club.

Framleiðendur þáttarins sáu á augabragði að þarna var stjarna á ferð en voru engu að síður með það á hreinu að Britney væri enn of ung. Þremur árum síðar, eftir feril í auglýsingum og skólasöngleikjum, reyndi hún aftur og fékk inngöngu í þáttinn.

Justin Timberlake hefur yfirleitt verið sagður sá sem Britney elskar enn. Líf hennar tók stakkaskiptum þegar þau hættu saman. fréttablaðið/Getty Images
Róm byggð á einu ári

Árið 1998 kom Britney sér á heimskortið og straumhvörf urðu í lífi Britney. Ofursmellurinn ...Baby One More Time tröllreið útvarpsstöðvum og það sem öllu áhrifameira var: sjónvarpsstöðvum. Þar birtist söngkonan og var gerð þannig úr garði að vera tælandi en saklaus í senn enda var hún aðeins 16 ára gömul og því urðu ímyndarsmiðirnir að halda aftur sér við að gera út á kynþokkann.

Í kaþólskum skólabúningi varð Britney umsvifalaust helsta fyrirmynd táningsstúlkna og söngkonan lét heimsbyggðina vita að þrátt fyrir tælandi yfirbragð hennar væri meydómur hennar vandlega geymdur, hún hefði í heiðri siðferðisleg gildi bandarísks þjóðfélags og yrði þegar fram liði trú og trygglynd eiginkona. Togstreitan næstu árin var oft mikil í ljósi þess að um leið og hún ætlaði að viðhalda ímynd sinni sem heiðvirð og góð stúlka var það hennar atvinna að daðra við og stríða heimsbyggðinni sem hálfgerð Lolíta.

...Baby One More Time olli meiri straumhvörfum í popptónlist en marga grunar og er það álitið eitt af 25 bestu popplögum allra tíma hjá tónlistartímaritinu Rolling Stone. Plata með sama nafni rauk rakleiðis í efsta sæti Billboard-listans og seldist hún í yfir tuttugu og fimm milljónum eintaka.

Britney, samviskusöm og metnaðarfull, fylgdi velgengni fyrstu plötunnar vel eftir og herjaði á markaðinn næstu árin af stakri list. Næstu tvær plötur, Oops!... I Did it Again og Britney, seldust síður minna en sú fyrsta og þótt enginn hafi búist við því að fjórða sólóplatan myndi halda áfram að selja tónlistarafurðir söngkonunar seldist hún afspyrnuvel og er slíkt afar fátítt - að fjórða plata listamanna nái að halda dampi í sölu.

Hjónaband Britney og K-Fed var dauðadæmt frá upphafi og varla til sá aðdáandi söngkonunnar sem ekki hafði horn í síðu dansarans.
Ástin leikur af sér

Dægurlagatextar Britney vísuðu í byrjun oft mikið til þess í hvernig aðstöðu hún var. Þannig impruðu þeir á því að hún væri að leita að ástinni, væri samt bara stúlka en ekki kona og hygðist geyma meyjarblómið handa hinum útvalda.

Sá reyndist vera Justin Timberlake. Britney og Justin kynntust í Mikka-mús klúbbnum og á tónleikaferðalagi N"Sync þegar hún hitaði upp fyrir sveitina á upphafsárum ferils sín.

Britney og Justin elskuðu hvort annað og aðdáendur og fjölmiðlar elskuðu þau. Fréttaflutningur af lífi Britney var á þeim tíma afar jákvæður og virtist svo vera sem fjölmiðlar nærðust á því að draga upp jákvæðar fréttir af henni og gerðu út á þær. Britney fékk þar góða hjálp þeirra við jákvæða ímyndarsköpun sem var svo kúvending á því þegar sambandi hennar og Justins lauk.

Það var árið 2002 og hafa fá sambandsslit fengið jafn mikla umfjöllun, að undanskildum kannski Karli og Díönu. Enda var aðdáendum kippt all rækilega úr dagdraumum um draumabrúðkaupið sem hlaut að verða von bráðar.

Justin hefur sjálfur sagt að ástæða þess að sambandinu lauk hafi verið trúnaðarbrestur þar sem Britney á að hafa sængað hjá öðrum. Hvað svo sem gerðist er víst að sú ástarsorg sem Britney lenti í þar varð að öllum líkindum formálinn að þeirri harmsögu sem fólk hefur orðið vitni að undanfarna daga. Undarlegar ákvarðanir í einkalífinu og hjónabandið með Jason Alexander í Las Vegas 2004 gaf til kynna að Britney ætlaði sér ekki lengur að vera til á pappírunum sem saklausa Suðurríkjamærin og upphófst lífsstíll sem var fjarri þeirri prúðu stúlku sem heimsbyggðin þekkti áður.

Jackson og Spears á góðri stundu. Báðar eru stjörnurnar á hraðri niðurleið í dag.
Snákur í Paradís

En Britney hafði lifað í vernduðum heimi. Að stíga fram í dagsljósið sem fullvaxta og sjálfstæð kona var ekkert grín og leitaði hún ásjár í örmum dansarans Kevin Federline. Eftir aðeins fjögurra mánaða kynni trúlofuðu þau sig og Britney taldi sig vera að uppfylla sinn æðsta draum; að finna ástina og verða móðir.

Aðdáendur höfðu illan bifur á eiginmanninum, fussuðu og sveiuðu á spjallrásum og heimasíðum og vöruðu hana við Federline, sannfærðir um að hann ætlaði að nýta sér frægð hennar til að koma sjálfum sér á framfæri. K-Fed, eins og hann var jafnan kallaður, var líkt við snák í Paradís sem hreiðrað hefði um sig í aldingarðinum og biði þess eins að opna skoltinn fyrir allsnægtunum.

Samband þeirra var skrautlegt í meira lagi og líktu margir þeim við suðurrískt hjólhýsahyski. Fjölmiðlar drógu upp svarta mynd af heimilishaldinu í Beverly Hills og ekki skánaði ástandið þegar fluttar voru fréttir af djammlíferni Federline í Las Vegas og víðar á meðan Britney bar barn undir belti. Ávextir sambandsins urðu þó tveir heilsuhraustir drengir.

Þrátt fyrir háværar yfirlýsingar um að allt væri í himnalagi komu fregnir um skilnað þeirra í nóvember á síðasta ári sennilega fáum á óvart. En hvað framhaldið bar sér í skauti var sennilega eitthvað sem enginn gat séð fyrir.

Á einu ári tókst henni hið óútreiknanlega: að leggja feril sinn í rúst, feril sem byggður hafði verið upp á mettíma.

Skandall hér og skandall þar

Flestir reiknuðu með að fyrst Britney hafði losað sig við sníkjudýrið Federline myndi hún senn blása lífi í feril sinn á ný.

En svo reyndist ekki vera. Paparazzi-ljósmyndarar náðu myndum af henni í slagtogi við víðfrægar djammdrottningar á borð við Paris Hilton og Lindsay Lohan, oftar en ekki án nærklæða. Fjölmiðlar drógu athygli almenning að meintri vanhæfni hennar sem móður og ekki skánaði ástandið þegar sögusagnir fóru á kreik um frjálslegt viðhorf gagnvart kynferðis­málum og eitur­­­lyfja­neyslu og vafasamt andlegt ástand. Sögurnar voru krassandi og fjölmiðlar nærðust á skandölum og gróusögum.

Á tímabili minnti líf Britney frekar á hressilegan Jerry Springer en tilveru stærstu poppstjörnu veraldar.

Fjölmiðlar og þá ekki síst svokallaðar slúður-bloggsíður gripu tækifærið enda ekki á hverjum degi sem stórstjarna riðar til falls í beinni útsendingu. Á hverjum degi, hverri klukkustund mátti sjá Britney á leið út í búð, Britney úti að borða og Britney að reykja. Að ekki sé talað um Britney á næturlífinu og Britney á heimleið. Allir biðu með öndina í hálsinum hverju hún tæki upp á næst og hvort hún myndi missa stjórn á lífinu fyrir allra augum.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölskyldu Britney og nánustu samstarfsmanna til að koma fyrir hana vitinu virtist söngkonan ekki hlusta.

Endalausar sögur um villt og taumlaust líferni fylltu dagblöðin og þegar sönkonan hugðist reyna að redda ferlinum á MTV-verðlaununum fyrir stuttu varð flestum ljóst að á sviðinu stóð stjarna í bæði andlegu og líkamlegu rusli.

Engin veit sína ævina...

Í vikunni var tilkynnt að Britney Spears hefði misst forræðið yfir strákunum sínum tveim, þeim Sean Preston og Jayden James. Hvorki lögfræðingar, umboðsmenn né útgáfufyrirtæki treysta sér til að vinna með henni. Dómari í málinu úrskurðaði síðar að söngkonan unga mætti hitta synina undir eftirliti en henni var gert að fara í meðferð, læra að tala við börn og taka áfengis- og lyfjapróf að minnsta kosti tvisvar í viku auk þess að hætta að aka bíl án tilskilinna leyfa.

Stjarna Britney Spears er horfin af himnafestingunni um stundarsakir og á meðan það er trú sumra að henni takist fyrr eða síðar að byggja upp veldi sitt að nýju eru aðrir sem óttast að örlög hennar liggi í endanlega glötun.

Þvert á allar hrakspár komst nýjasta smáskífan hennar Gimme More á topp bandaríska listans og myndbandið við lagið lýsir kannski best þeim tveim persónum sem berjast um yfirhöndina í lífi hennar. Annars vegar er það ljóshærð stúlka sem situr við barinn, pen og prúð með kokteil í hendi. Og hins vegar dökkhærður strippari sem er til alls vís.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.