Bíómyndin um vinsælustu fjölskyldu heims virðist ætla að ganga vel ofan í Íslendinga, en myndin sló fjölda aðsóknarmeta um helgina. Hvorki fleiri né færri en 16.007 Íslendingar sáu myndina á fyrstu 3 sýningardögum og halaði hún inn rúmlega 12.5 milljónum króna. Myndarinnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu, en hún hefur verið tæp sex ár í vinnslu.
Þeir sem geta ekki fengið nóg af fjölskyldunni heiðgulu, ættu að kíkja á stórskemmtilega heimasíðu myndarinnar, þar sem meðal annars er hægt að búa til sinn eigin Simpsons karakter og rölta um Springfield. Þar er meðal annars hægt að kíkja á krána hans Moe og versla hjá Apu í Kwik E Mart.
Þættirnir um Simpson-fjölskylduna hafa notið gríðarlegra vinsælda þau átján ár sem þeir hafa verið sýndir í sjónvarpi. Fjölskyldan er sköpunarverk Matt Groening, en hún birtist fyrst sem sketsar í ,,The Tracey Ullman Show" þann 19. apríl árið 1987. Rúmum tveimur árum síðar, í desember 1989 var fyrsti sjálfstæði þátturinn sýndur og síðan þá hafa þeir keyrt óslitið og unnið til fjölda verðlauna.
Íslendingar flykkjast á Simpsons
Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
