Lífið

Tom Cruise og Nicole Kidman sameinuð

Leiðir Nicole Kidman og Tom Cruise liggja saman á ný í haust þegar þau verða bæði við tökur í Bablesburg stúdíóunum í Berlín, þar sem þau leika hvort í sinni helfararmyndinni.

Kidman skrifaði fyrir tveimur vikum undir samning um að leika í The Reader, sem gerð er eftir sögu Bernhard Schlink og fjallar um erfiðleika seinni kynslóða að skilja helförina. Cruise leikur hinsvegar greifann Stauffenberg í myndinni Valkyrie, sem leiddi misheppnaða tilraun til að ráða Adolf Hitler af dögum árið 1944.

Tökulið myndarinnar lenti í vandræðum vegna þess að þýsk yfirvöld meinuðu tökuliðinu að mynda á ákveðnum stöðum vegna trúarskoðana Toms, en hann er meðlimur í Vísindakirkjunni, sem er flokkuð sem sértrúarsöfnuður í Þýskalandi.

Þau Kidman og Cruise voru gift í tíu ár og eiga saman tvö ættleidd börn 14 og 12 ára. Þau skildu árið 2001.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.