Innlent

Kaupþing að yfirgefa krónuna

Kaupþing er að yfirgefa krónuna sem uppgjörsmynt og er búist við að bankinn tilkynni þann 30. janúar að hann hafi ákveðið að skrá bókhald sitt og eigið fé í evrum. Það yrði verulegt áfall fyrir peningastefnu Seðlabankans.

Stjórnendur Kaupþings hafa engu viljað svara um þetta efni en sterkar vísbendingar eru um hvert bankinn er að stefna. Háttsettur maður í fjármálalífi landsins, sem Stöð 2 ræddi við í morgun, telur að það yrði afleitt fyrir peningamálastefnuna og raunar áfall en hann telur yfirgnæfandi líkur á að bankinn tilkynni þann 30 . janúar, eftir tuttugu daga, þegar hann birtir ársreikning sinn, að hann hafi ákveðið að færa bókhald sitt í evrum.

Greining Landsbankans vekur athygli á því í gær að bankarnir hafi á síðustu vikum safnað miklum gjaldeyri og stendur Kaupþing þar upp úr. Telur greining Landsbankans erfitt að sjá annan tilgang í jafnmikilli uppbyggingu gjaldeyrisforða bankanna en að þeir séu einn eða fleiri í alvöru að undirbúa að yfirgefa krónuna sem uppgjörsmynt.

Spjótin beinast þó fyrst og fremst að Kaupþingi. Hann myndi þá fylgja í kjölfar Straums-Burðaráss, sem tilkynnti fyrir jól, að uppgjör bankans og eigið fé bankans yrði flutt yfir í evrur. Ákvörðun Kaupþings yrði hins vegar mun afdrifaríkari enda er um að ræða viðskiptabanka sem þar að auki er stærsti banki landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×