Íslenski boltinn

Enginn glansfótbolti hjá FH sem kláraði verkefnið örugglega

FH er komið örugglega áfram í aðra umferð eftir 4-1 sigur á HB, samanlagt.
FH er komið örugglega áfram í aðra umferð eftir 4-1 sigur á HB, samanlagt. fréttablaðið/daníel

FH og HB gerðu markalaust jafntefli í síðari leik liðanna í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu í Færeyjum í gær. FH vann leikinn 4-1 og er þar með komið áfram en leikurinn í gær þótti ekki mikið fyrir augað.



„Þetta var enginn glansfótbolti, einhverjir myndu kalla þetta vinnusigur,“ sagði Guðlaugur Baldursson, sem gegndi stöðu aðstoðarþjálfara hjá FH í gær í fjarveru Heimis Guðjónssonar.



„Þetta var frekar jafn leikur en við kannski ívið sterkari. Við fórum varlega inn í leikinn og sáum hvað þeir ætluðu að gera en þeir ógnuðu okkur ekki mikið. Þeir sóttu ekki mikið og færðu sig ekki framarlega á völlinn og því vorum við frekar rólegir í leiknum. Við hefðum getað sett mark eða mörk á þá þegar leið á leikinn,“ sagði Guðlaugur sem sýndist sem leikmenn HB væru nánast búnir að gefast upp fyrir leikinn enda þremur mörkum undir eftir fyrri leikinn.



„Maður fékk það svolítið á tilfinninguna að þeir vildu bara ekki fá á sig mörg mörk og því voru þeir mjög varfærir í sínum aðgerðum. FH var að spila ágætlega, betur í þeim síðari en í fyrri hálfleik. Þá héldum við boltanum ágætlega og þeir lentu í erfiðleikum þegar við náðum að halda boltanum. Við ákváðum bara að vera ekki að gera neina skandala í þessu og það tókst,“ sagði Guðlaugur.“



Íslandsmeistararnir mæta FC Bate frá Hvíta-Rússlandi í næstu umferð. Hún byrjar strax í næstu viku og verður lokið 8. ágúst en endanlegar dagsetningar á leikina eru ekki komnar í ljós. Bate er meistaraliðið í sínu landi og er byggt nánast algjörlega upp á heimamönnum. Þeir hafa sterkan heimavöll en Alexander Hleb, sem nú leikur með Arsenal, gerði garðinn frægan hjá félaginu á uppvaxtarárum sínum. Það er ljóst að ærið verkefni bíður FH í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×