Lífið

Hefur varla séð sig í sjónvarpinu

Einar Magnús Einarsson hefur sýnt góða takta á skjánum síðan hann hóf störf sem veðurfréttamaður í síðustu viku. Hann kynntist töfrum veðurfræðinnar í námskeiði hjá Haraldi Ólafssyni.
Fréttablaðið/Hörður
Einar Magnús Einarsson hefur sýnt góða takta á skjánum síðan hann hóf störf sem veðurfréttamaður í síðustu viku. Hann kynntist töfrum veðurfræðinnar í námskeiði hjá Haraldi Ólafssyni. Fréttablaðið/Hörður

„Þetta hefur gengið betur en ég bjóst við,“ segir Einar Magnús Einarsson sem nýverið hóf störf sem veðurfréttamaður í Ríkissjónvarpinu. Einar birtist fyrst á skjánum á miðvikudaginn í síðustu viku og hefur sýnt fína takta þrátt fyrir reynsluleysið.

„Það var auðvitað eitthvað stress þegar maður byrjaði en það hefur eiginlega komið mér á óvart hversu vel þetta hefur gengið,“ segir Einar sem er tæplega 28 ára gamall, kvæntur og á barn. Meðfram starfinu í sjónvarpi starfar hann á reiknistofu í veðurfræði sem heldur meðal annars úti vefnum Belgingur.is.



Aðspurður segist Einar kunna nýja starfinu ágætlega, launin séu þokkaleg og hann sjái alveg fyrir sér að halda þessu áfram meðan hann nenni og fólk vilji hafa hann áfram. Hann á þó nokkuð erfitt með að meta eigin frammistöðu í sjónvarpinu, sér í lagi þar sem hann á ekki sjónvarp. „Já, sjónvarpið mitt eyðilagðist rétt áður en ég byrjaði í sjónvarpinu. Ég hef eiginlega bara séð sjálfan mig í litlum glugga á tölvuskjá,“ segir hann og hlær.



Einar er um þessar mundir að leggja lokahönd á meistaraverkefni sitt í jarðeðlisfræði, en veðurfræðin er grein innan hennar. Í lokaverkefninu fjallar Einar um óvissu í veðurspám, hann skoðaði þrjú óveður og markmiðið er að greina af hverju langtíma tölvuspá er stundum töluvert frábrugðin skammtímaspám.



Ekki eru margir sem leggja stund á nám í veðurfræði við Háskóla Íslands. Aðspurður hvað fái ungan mann út á þessa braut segir Einar: „Ja, það var nú eiginlega Halla, Haraldi Ólafssyni, að kenna. Ég tók eitt námskeið hjá honum og hann kynnti mig fyrir töfrum veðurfræðinnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.