Lífið

Syndug hjörtu á Rauðasandi

Laugardaginn 28. júlí verður efnt til menningarkvölds að Saurbæ á Rauðasandi undir yfirskriftinni: Við klukknahljóm syndugra hjarta. Tilefnið er ný útgáfa Bókaútgáfunnar Bjarts á skáldsögunni Svartfugli eftir Gunnar Gunnarsson.

Gunnar var um fertugt þegar hann skrifaði söguna un Eyjólf kapelán og ástríðuglæpi Bjarna og Steinunnar á Sjöundá. Bókin kom út hjá Gyldendal í Danmörku haustið 1929 og vakti strax mikla athygli. Sagan er stundum sögð vera fyrsta alvöru íslenska glæpasagan þar sem réttarrannsókn spinnur söguþráðinn.

Dagskráin verður flutt í því stórbrotna landslagi sem voru rammi þeirra dramatísku atburða er Gunnar notar sem efnivið í söguna, undir stórskornum fjöllum og við rauðgullinn skeljasand. Hún hefst kl. 20.00 með erindi Gunnars Björns Gunnarssonar, afkomanda skáldsins, um Svartfugl. Síðan munu leikararnir Jón Hjartarson, Þorsteinn Gunnarsson og Valgerður Dan leiklesa brot úr bókinni og Áshildur Haraldsdóttir leikur flautuverkið Lethe eftir Atla Heimi Sveinsson. Að lokum verður séra Sveinn Valgeirsson með hugvekju í Saurbæjarkirkju. Boðið verður upp á léttar veitingar að lokinni dagskrá og er áhugasömum bent á gott tjaldsvæði á staðnum.

Dagskráin er samvinnuverkefni Bókaútgáfunnar Bjarts, Gunnarsstofnunar og Ferðafélags Íslands sem verður með gönguferð um svæðið frá 27. til 30. júlí.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.