Lífið

Brynja Björk á ævintýraslóðum í Perú

Guðjón Jónsson leikstjóri veiktist heiftarlega í ferðinni og fékk háan hita. Hann ku þó vera á batavegi.
Guðjón Jónsson leikstjóri veiktist heiftarlega í ferðinni og fékk háan hita. Hann ku þó vera á batavegi.

„Við lentum hérna 7. júlí og förum 28. til New York,“ segir Brynja Björk Garðarsdóttir, blaðamaður á Mannlífi og fyrrum þáttastjórnandi á sjónvarpsstöðinni Sirkus. Ólíkt þeirri ímynd sem var kynnt í sjónvarpsþættinum fræga um næturlífið í Reykjavík er Brynja fjarri öllum skarkala borgarlífsins. Hún er nefnilega í Perú og var stödd í litlum bæ sem heitir Olliantaytambo ásamt kærastanum sínum, leikstjóranum Guðjóni Jónssyni og fjölskyldu hans.

„Um leið og við lentum fórum við til Amazon-skóganna og vorum þar í nokkra daga en héldum síðan upp í Andesfjöllin,“ segir Brynja en dvölin í frumskógum Suður-Ameríku dró dilk á eftir sér því í fjögur þúsund metra hæð veiktist Guðjón heiftarlega.

„Hann fékk einhverja moskítóflensu og alveg hrikalega háan hita. Þetta var alveg skelfilegt en honum er eitthvað að líða betur. Við erum því á leiðinni til Cuscon og ætlum að fá sýklalyf þar,“ segir Brynja.



Ferðalag hersingarinnar er ævintýrum blandið en þau hafa gist í tjöldum í bæði Amazon-skógunum og Andesfjöllunum. Brynja tekur þó skýrt fram að þau fái einnig tækifæri til að láta þreytuna líða úr sér á hótelum. Að sögn Brynju fékk hún hálfgert menningarsjokk þegar hún kom til þessa fátæka lands.

„Ég hef aldrei séð fólk lifa svona fábrotnu lífi eins og hérna í Andesfjöllunum. Hérna hafa krakkarnir varla séð sjónvarp og við leyfðum þeim að hlusta á iPodinn okkar sem þeim þótti mikið tækniundur,“ segir Brynja.

Að sögn Brynju er veðurfarið uppi í fjöllunum ekkert ólíkt því sem gerist á Íslandi. En þrátt fyrir að þau hafi verið vel búin íslenskum fatnaði dugði það ekki til gegn kuldanum í háloftunum.

„Við vorum voðalega kokhraust og héldum að þetta væri nú ekki verra en íslensk útilega. Eftir eina nótt neyddumst við hins vegar til að kaupa okkur bæði ullarpeysur, vettlinga, húfur og síðar nærbrækur,“ segir Brynja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.