Innlent

Hátíðarhöld hafa varpað skugga á ímynd Akureyrar

Frá hátíðarhöldum á Akureyri í fyrra.
Frá hátíðarhöldum á Akureyri í fyrra. MYND/Hilli

Bæjarstjóri Akureyrar, Sigrún Björk Jakobsdóttir, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að bæjarstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að meina ungmennum að tjalda í bænum um síðustu verslunarmannahelgi. Í yfirlýsingunni segir meðal annars að undanfarnar verslunarmannahelgar hafi fallið skuggi á þá viðleitni bæjaryfirvalda að skapa bæjarfélaginu ímynd öflugs mennta- og menningarsamfélags þegar skipulagðar skemmtanir í bænum hafi farið úr böndunum. Því hafi þurft að grípa til markvissra aðgerða.

„Eftir miklar umræður um hvaða leiðir væru færar til að tryggja að skipulögð fjölskylduhátíð breyttist ekki í hamslausa útihátíð greip bæjarstjóri til þess ráðs að takmarka aðgang unglinga að tjaldsvæðum bæjarins um þessa verslunarmannahelgi," segir Sigrún Björk í yfirlýsingunni. „Ákvörðunin var tekin af illri nauðsyn en því miður var þetta eina færa leiðin til að koma böndum á ástandið sem ríkt hefur í bænum um verslunarmannahelgar undanfarin ár. Þessi ákvörðun var tekin og ég stend við hana."

Bæjarstjórinn segir augljóst að aðgerðirnar hafi borið árangur og segir hún fjölda bæjarbúa hafa haft samband við bæjaryfirvöld og lýst ánægju sinni með hvernig til tókst. „ Allt annar bragur var á tjaldsvæðum bæjarins og samkvæmt upplýsingum lögreglu var mun rólegra í bænum en undanfarnar verslunarmannahelgar. Í fyrsta sinn í langan tíma var um sannkallaða fjölskylduhátíð að ræða," segir Sigrún.

Hún dregur einnig í efa að tjaldbannið hafi verið ástæðan fyrir því að helmingi færri heimsóttu bæinn í ár en í fyrra, en um 6000 manns eru taldir hafa lagt leið sína til Akreyrar um verslunarmannahelgina. „Í því sambandi ber að geta þess að veðurspá fyrir landið þessa helgi var verst fyrir Norðurland og ekki er vafi á að slæmt veður hafði mikil áhrif á aðsóknina að hátíðinni. Þetta kom einnig skýrt fram í dræmri aðsókn að Síldarævintýrinu á Siglufirði," segir Sigrún. Hún bendir einnig á tölur yfir umferð um Hvalfjarðargöngin en umferð um göngin mun hafa verið fjórum prósentum minni um nýliðna helgi en sömu helgi í fyrra. „ Það er því ljóst að mun fleiri þættir en aldurstakmark á tjaldsvæðum ollu minni aðsókn að hátíðinni í ár en í fyrra."

Sigrún lýkur yfirlýsingunni á sáttanótum og hvetur til þess að menn slíðri sverðin. „ Mikið hefur verið rætt um þessar ráðstafanir meðal bæjarbúa og annars staðar undanfarna daga. Nú þurfa Akureyringar hins vegar að slíðra sverðin og nota næsta árið til að ákveða hvernig standa beri að fjölskyldumhátíðum í bænum til framtíðar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×