Innlent

Treg laxveiði truflar ekki eftirspurn næsta sumars

Hin trega laxveiði í ám landsins það sem af er sumri hefur ekki haft áhirf á eftirspurn eftir veiðileyfum fyrir næsta sumar. Bjarni Júlíusson formaður SVFR segir ennfremur að ekki sé merkjanlegur munur á að menn falli frá veiðileyfum sínum í ár miðað við fyrri ár. "Það er að vísu ívíð meir um slikt nú miðað við fyrri ár en vart merkjanlegur munur," segir Bjarni

Það vakti athygli veiðimanna að um daginn voru veiðileyfi í tveimur þekktum laxveiðiám auglýst til sölu í Morgunblaðinu. Bjarni segir slíkt mjög óvenjulegt enda hafa yfirleitt fleiri viljað kaupa leyfi í slikum ám en getað fengið. Og þeir sem haafa viljað losa sig við leyfi hafi ekki átt í neinum vandræðum með slíkt án þess að þurfa að auglýsa þau.

"Við finnum engin merki nú um að hin trega laxveiði í sumar hafi haft áhrif á eftirspurnina fyrir næsta sumar," segir Bjarni. "Forúthlutanir nú á dýrum dögum í ám á borð við Norðurá, Hítará og Laxá í Kjós eru á svipuðu róli og í fyrra."

Bjarni segir hinsvegar að fari svo að næsta sumar verði jafnslæmt og í ár megi búast við meira róti á laxveiðileyfamarkaðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×