Enski boltinn

Öruggt hjá Chelsea

Shaun Wright-Phillips var óvænt á skotskónum fyrir Chelsea í kvöld
Shaun Wright-Phillips var óvænt á skotskónum fyrir Chelsea í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Chelsea vann í kvöld öruggan 4-1 útisigur á grönnum sínum í West Ham í ensku úrvalsdeildinni og minnkaði um leið forskot Manchester United niður í þrjú stig á toppnum. West Ham er nú komið í verulega vond mál í botnbaráttunni. Liverpool lagði Middlesbrough 2-0 með mörkum Steven Gerrard og Blackburn vann Watford 3-1.

Shaun Wright-Phillips skoraði tvö mörk fyrir Chelsea í fyrri hálfleik í kvöld, en þar á milli náði Carlos Tevez að jafna metin fyrir heimamenn. Meistarar Chelsea gerðu svo út um leikinn í síðari hálfleik með mörkum frá Salomon Kalou og Didier Drogba og Eggert Magnússon greip um höfuð sér í stúkunni - vitandi að dagar liðs hans í úrvalsdeildinni eru taldir nema til komi kraftaverk.

Liverpool var betri aðilinn gegn Middlesbrough í kvöld en það var eins og oft áður fyrirliðinn Steven Gerrard sem reið baggamuninn fyrir liðið. Hann braut ísinn á 58. mínútu með bylmingsskoti og gerði út um leikinn með marki úr vítaspyrnu á þeirri 65. Liverpool er þar með komið aftur í þriðja sæti deildarinnar.

Loks vann Blackburn auðveldan sigur á botnliði Watford 3-1, þar sem sigur heimamanna var aldrei í hættu. Christopher Samba kom Blackburn yfir með marki eftir hornspyrnu á 7. mínútu og Jason Roberts kom liðinu í 2-0 aðeins þremur mínútum síðar. Douglas Rinaldi minnkaði muninn fyrir gestina með skalla á 21. mínútu en hinn magnaði Benni McCarthy gerði út um leikinn þegar hann skoraði þriðja mark liðsins eftir hálftíma leik. Blackburn fékk fleiri færi ti að skora í síðari hálfleiknum, en þau urðu ekki fleiri að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×