Innlent

Þjóðhátíðardeginum fagnað í kæfandi hita

Íslendingar í Torrevieja á Spáni stormuðu í skrúðgöngu í kæfandi hita í gær og fögnuðu afmæli lýðveldisins.

Hátt á þriðja hundrað Íslendingar komu saman í Torrevieja í gær og fögnuðu 17. júní eins og sönnum Íslendingum sæmir. Þessi mannfagnaður var einn sá fjölmennasti sem fram hefur farið meðal Íslendinga á svæðinu en þeir eru fjölmargir sem hafa þarna fasta búsetu stóran hluta úr árinu.

Íslendingarnir vöktu athygli á svæðinu þegar skrúðgangan stormaði að íslenskum sið með þrjá fánabera í brjósti fylkingar. Engin var þó lúðrasveitin en tónlistin var flutt með glymskratta. Gengið var um götur Orihuela Costa og náði hersingin að snúa við mörgum kollum sem horfðu í humátt á eftir þessum íslensku göngumönnum.

Gangan endaði í sundlaugagarði Orihuela Costa hótelsins þar sem grillaðar voru íslenskar pylsur fyrir gesti og gangandi. Krakkarnir fóru í leiki og skelltu sér í sundlaugina en fullorðna fólkið hlustaði á íslensk ættjarðarlög og dægurtónlist. Eftir pylsuveisluna kom Eyjólfur Kristjánsson og hélt uppi fjöri með söng og gítarspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×