Lífið

Hvert orð satt í Breiðavíkurbók

Bárður Ragnar Jónsson segir að tímarnir eftir að Breiðavíkurmálið komst í hámæli hafi reynt mikið á hann.
Fréttablaðið/Anton
Bárður Ragnar Jónsson segir að tímarnir eftir að Breiðavíkurmálið komst í hámæli hafi reynt mikið á hann. Fréttablaðið/Anton
„Ég er kominn með eintök og það er óneitanlega dálítið sérstakt að sjá nafn sitt í fyrsta skipti á bókatitli," segir Bárður Ragnar Jónsson en í dag kemur út bókin Breiðavíkurdrengur: Brotasaga Páls Elísonar. Eins og nafnið gefur til kynna eru þetta minningar Páls frá tíma hans á Breiðavík og einskorðast hún nánast eingöngu við dvölina á betrunarheimilinu sem stóð yfir í rúm þrjú ár.

„Hún hefst í flugvél þegar Páll er á leiðinni og henni lýkur í flugvél þegar Páll er að koma heim," segir Bárður sem vill þó ekki kalla sig höfund bókarinnar heldur sé hann miklu meira skrásetjari. „Páll var búinn að skrifa megnið af þessu en við ákváðum í samstarfi við forlagið að ég myndi raða brotunum niður," útskýrir Bárður sem var sjálfur á Breiðavík á sama tíma og Páll dvaldist þar og kemur eilítið við sögu í bókinni. „Menn muna ævi sína á mismunandi hátt og og ég hugsa að ef ég hefði farið í að skrá æviminningar mínar þá væru þær öðruvísi," segir Bárður. „En það er hvert orð satt, eins og Páll segir sjálfur."

Varla hefur það farið framhjá neinum að heimildarmyndin um Breiðavík, Syndir feðranna, var frumsýnd í síðustu viku og Bárður var viðstaddur forsýninguna. Hann segir að það hafi verið erfitt að horfa á myndina en hann sé ákaflega sáttur við hvernig leikstjórunum Ara Alexander og Bergsteini Björgúlfssyni tókst til. „Ég byrjaði að tala við þá í kringum árið 2004 þannig að þetta var ákveðinn hátindur," segir Bárður en bætir því síðan við að það hafi reynt ansi mikið á hann þegar málið komst í hámæli og allir vildu fá að ræða um þetta. „Þeir sem þarna voru höfðu ekki haft neinn sérstakan áhuga á því áður," segir Bárður.-fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.