Lífið

Sterkar tilfinningar á Syndum feðranna

Troðfullt var í aðal­sal Háskólabíós og var meðal annars brugðið á það ráð að bæta við sætum í salinn.
Troðfullt var í aðal­sal Háskólabíós og var meðal annars brugðið á það ráð að bæta við sætum í salinn.
Heimildarmyndin Syndir feðranna eftir þá Ara Alexander og Bergstein Björgúlfsson var frumsýnd í Háskólabíói á fimmtudagskvöldið. Fjölmenni mætti á frumsýninguna og kallaði myndin fram sterkar tilfinningar hjá mörgum.

Syndir feðranna lýsir hörmulegum og skelfilegum aðstæðum á betrunarheimilinu Breiðavík á árunum 1953 til 1972. Málið komst í hámæli fyrr á þessu ári og vakti bæði gríðarlega athygli og reiði úti í þjóðfélaginu, ekki síst í ljósi þess að þarna höfðu stjórnvöld brugðist þessum drengjum er þarna voru vistaðir.

„Þetta var mjög átakanleg mynd en um leið mjög fallega gerð,“ segir leikstjórinn Ragnar Bragason sem var meðal gesta. „Það er orðið langt síðan maður varð jafn hrærður í kvikmyndahúsi,“ bætir hann við. Felix Bergsson leikari tók undir þessi orð og sagði þetta hafa verið ákaflega sterka mynd.

„Þeir voru ekkert að velta sér upp úr hlutunum heldur leyfðu strákunum að tala og segja hlutina eins og þeir voru. Þetta er saga sem varð að segja og þeir Ari og Bergsteinn gera það mjög vel,“ segir Felix sem fór sjálfur vestur á Breiðavík í sumar og dvaldist hjá staðarhöldurunum, Birnu Atladóttur og Keran Stueland Ólason. „Ég held að allir hafi gott af því að fara þangað og setja sig í spor þessara stráka og reyna að sætta sig við þessa sögu,“ bætir Felix við.

Fullt var út úr dyrum í Háskólabíói og var meðal annars gripið til þess ráðs að bæta við stólum. Myndin hafði augljóslega mjög sterk áhrif á viðstadda og höfðu margir orð á því að þeir ættu eflaust erfitt með svefn um nóttina.

freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.