Lífið

Tískusýning í miðbænum

Þórhildur Ýr Jóhannesdóttir kynnir nýja fatalínu sína á tískusýningu ER og 101 Hárhönnunar á Skólavörðustígnum á laugardag.
Þórhildur Ýr Jóhannesdóttir kynnir nýja fatalínu sína á tískusýningu ER og 101 Hárhönnunar á Skólavörðustígnum á laugardag.

Verslunin ER og hársnyrtistofan 101 Hárhönnun standa fyrir tískusýningu á Skólavörðustígnum á laugardag. Þar fyrir utan mun Þórhildur Ýr Jóhannesdóttir kynna nýja fatalínu sína undir nafninu Tóta Design.

Tískusýning á vegum ER og Hárhönnunar er nú haldin í annað skipti.

„Í fyrra gekk þetta allt vonum framar. Við ákváðum að halda hana aftur í ár, af því okkur fannst þetta líka alveg ótrúlega gaman,“ sagði Þórhildur, annar eigandi hárgreiðslustofunnar. Auk hennar standa Áslaug Harðardóttir hjá ER, og Hildur Sif Kristborgardóttir, förðunarfræðingur og meðeigandi Þórhildar, fyrir sýningunni.

Bæði ER og 101 Hárhönnun eru við Skólavörðustíginn, sem varð því fyrir valinu sem sýningarstaður. „Okkur fannst það svona ný og skemmtileg hugmynd að hafa „runwayið“ á götunni sjálfri. Skólavörðustígurinn er líka að blómstra núna, svo þetta er líka dálítil kynning fyrir hann,“ útskýrði Þórhildur, sem iðulega er kölluð Tóta.

Tóta kynnir eigið fatamerki í ár, undir nafninu Tóta Design. „Ég er búin að vera að hanna og sauma svona af og til í nokkur ár, en er núna að senda frá mér línu í fyrsta skipti. Ég er í rauninni að þessu af því að mér finnst þetta svo skemmtilegt, ég er ekki menntuð á þessu sviði,“ útskýrði hún. „Eftir að við ákváðum að halda sýningu aftur fannst mér þetta bara kjörið tækifæri til að skella mér út í djúpu laugina,“ bætti hún við. Tóta hefur áður selt dálítið af hönnun sinni á 101 Hárhönnun og föt úr nýju línunni verða fáanleg þar.

Vegna tískusýningarinnar verður Skólavörðustígnum lokað á milli 14 og 17 á laugardag. Á sýningunni verður sýndur klæðnaður frá þekktum fatahönnuðum á borð við Rundholz og Annette Görtz. Léttar veitingar verða í boði fyrir sýninguna, sem er opin öllum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.