Lífið

Frumraun Vinnuskólakrakka í Hafnarfirði

Krakkarnir í Fjölmiðlahópnum gerðu sér lítið fyrir og dreifðu blaðinu í öll hús í Hafnarfirði.
Krakkarnir í Fjölmiðlahópnum gerðu sér lítið fyrir og dreifðu blaðinu í öll hús í Hafnarfirði.

Blaðið Frumraun kom út á föstudaginn en það er unnið af 14-16 ára unglingum í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sem hafa unnið að útgáfunni hörðum höndum í allt sumar. „Þetta er hópur unglinga sem hefur fræðst um fjölmiðlaheiminn í sumar í stað þess að reita arfa í beðum,“ segir Brynjar Guðnason flokkstjóri Fjölmiðlahóps. „Vinnsla blaðsins gekk mjög vel í sumar og krakkarnir voru duglegir við að finna efni sem þau hafa áhuga á og vinna það fyrir blaðið. Einnig hafa þau séð sjálf um að taka þær myndir sem þurfti í blaðið og eru í þessum töluðum orðum að dreifa því í hús,“ segir Brynjar sem sér einnig um umbrot blaðsins.

Blaðinu er dreift frítt í öll hús í Hafnarfirði auk þess sem það er aðgengilegt á heimasíðunni www.frumraun.is. Í því má meðal annars finna viðtöl við grínistann Þorstein Guðmundsson, aðstandendur Forma samtakanna, unga ljósmyndara, dragdrottningu Íslands auk fjölda annarra greina.

Þetta er í fimmta sinn sem blaðið er gefið út og voru að þessu sinni prentuð 8500 eintök. „Blaðið hefur orðið stærra og veglegra með árunum eins og eðlilegt er. Einhverjir í hópnum eru komnir með fjölmiðlabóluna og aðrir hyggjast jafnvel ætla að leggja fyrir sig ljósmyndun í framtíðinni eftir þessa reynslu,“ segir Brynjar en þetta er í annað skipti sem hann sér um útgáfu blaðsins. Hinir duglegu unglingar í fjölmiðlahópnum gerðu einnig sjónvarpsfréttir í sumar og er hægt að horfa á þær á heimasíðu blaðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.