Lífið

Winehouse í vandræðum

Vandræðagemlingurinn Amy Winehouse hefur frestað fyrirhuguðum tónleikum sínum.
Vandræðagemlingurinn Amy Winehouse hefur frestað fyrirhuguðum tónleikum sínum.

Vandræðagemlingurinn Amy Winehouse er komin í meðferð vegna drykkju- og eiturlyfjavandamála sinna og hefur því frestað fyrirhuguðum tónleikum sínum, á V Festival í Bretlandi og Rock en Seine-hátíðinni í Frakklandi.

„Amy Winehouse hefur frestað öllum tónleikum sínum í þessum mánuði af heilsufarsástæðum,“ sagði talskona hennar. „Fjölskylda hennar hefur beðið fjölmiðla um að fá ró og næði af þessum sökum.“

Winehouse, sem er 23 ára, vann Brit-verðlaunin í febrúar sem besta söngkonan. Sló hún í gegn með fyrstu plötu sinni, sem hafði m.a. að geyma lagið Rehab. Hún hefur verið mikið í sviðsljósinu vegna sukksams lífernis og óttast margir um heilsufar hennar. Í síðustu viku var hún lögð inn á sjúkrahús vegna „alvarlegrar ofþreytu“, eins og útgáfufyrirtæki hennar lét hafa eftir sér. Herma fregnir þó að hún hafi verið lögð inn vegna ofneyslu á áfengi og öðrum vímuefnum.

Blake Fielder-Civil, eiginmaður Winehouse, hefur viðurkennt að hún eigi við vandamál að stríða.

„Þetta hefur verið erfiður tími fyrir mig og Amy. Staðreyndin er samt sú að við erum ennþá saman og ætlum aftur á þennan stað í kvöld,“ sagði hann og átti þar við meðferðarheimilið. „Aðalatriðið er að mér og Amy líður betur. Ekki hafa neinar áhyggjur því hún fær góða umönnun. Hún er staðráðin í að ná heilsunni aftur.“

Winehouse hefur verið tilnefnd sem besti nýliðinn og sem söngkona ársins á MTV-verðlaunahátíðinni sem verður haldin í byrjun september.

Ef allt gengur að óskum fer hún síðan í tónleikaferð um Norður-Ameríku í næsta mánuði og um Evrópu í október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.