Lífið

Leikkonur stílisera flóamarkaðsgesti

Elma Lísa, Edda Björg og María Heba selja föt, glingur, skó og töskur á menningarlegum flóamarkaði á Lindargötu í dag.
Elma Lísa, Edda Björg og María Heba selja föt, glingur, skó og töskur á menningarlegum flóamarkaði á Lindargötu í dag. MYND/pjetur

Leikkonurnar Elma Lísa Gunnarsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir hafa gramsað í geymslum og safnað saman dóti sem þær munu selja á menningarlegum flóamarkaði í dag. „Þetta er kynngimagnaður flóamarkaður,“ sagði Elma Lísa dularfull. „Við erum með fullt af gersemum,“ bætti hún við. Á meðal fjársjóðanna eru föt, glingur, skór, töskur og eitthvað af barnafötum.

Elma Lísa er enginn nýgræðingur í flóamörkuðum og hefur stundum staðið vaktina í markaðnum sem fram fer í Sirkusportinu. „Ég er komin með lager af dóti. Þetta er hins vegar afmeying þeirra Eddu og Maríu,“ sagði hún og hló við. „Það er gaman að vera margar saman í þessu, það er ekkert skemmtilegt að vera einn,“ bætti hún við.

Þar sem dagurinn er helgaður menningu í Reykjavík, fær flóamarkaðurinn sömu yfirskrift. „Okkur fannst við hæfi að hafa þetta á menningardaginn, svo við getum hjálpað fólki að velja menningardressið,“ sagði Elma Lísa. „Við tökum vel á móti því og bjóðum upp á stíliseringu líka, fólki að kostnaðarlausu,“ bætti hún við. Fyrir utan menningarbraginn sem leikkonurnar þrjár ljá markaðnum, verður einnig eitthvað um óvæntar uppákomur. „Það verður mystískur trúabador á staðnum, og spákona að spá í bolla. Svo verðum við auðvitað með heitt á könnunni,“ sagði Elma Lísa, sem ekki vildi ljóstra upp um fleira.

Markaðinn menningarlega er að finna í FÍL húsinu að Lindargötu 6. Hann verður opinn frá hádegi til klukkan 18.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.