Lífið

Lénið kostaði þriggja mánaða áskrift

Daníel segir hana tilvalin vettvang til að halda uppi umræðunni um kostnaðinn af Sýn 2.
Daníel segir hana tilvalin vettvang til að halda uppi umræðunni um kostnaðinn af Sýn 2.

„Ég lét pöbbinn duga í 1. umferðinni um helgina og á ekki von á að gerast áskrifandi á næstunni,“ segir Daníel Snorri Jónsson, sem keypt hefur lénið www.syn2.is og heldur þar uppi umræðu um það sem hann vill meina að sé óhófleg verðlagning Sýnar 2 á áskrift af enska boltanum.

„Ég sá að lénið var á lausu og stökk á það. Það kostaði tíu þúsund krónur auk virðisaukaskatts, svipað og þriggja mánaða áskrift að Sýn 2,“ sagði Daníel í gamansömum tón. Öllu alvarlegri bætir hann þó við að hann og fleiri eigi mjög erfitt með að sætta sig við þann kostnað sem blasir við, vilji þeir horfa á enska boltann heima í stofu.

Daníel segir vefslóðina vera fínan vettvang til að halda uppi umræðunni um verðlag Sýnar og á síðunni má finna tengla í ýmsar vangaveltur um verðlagninguna. Þá hefur hann hannað sérstakt lógó fyrir nýju stöðina sem ber slagorðið „Sýn 2 – Dýrasta sætið.“

„Ef verðið á Sýn 2 er borið saman við það sem gerist í nágrannalöndunum þá lýgur þetta slagorð engu,“ fullyrðir Daníel. Spurður um hvort lénið sé til sölu segir Daníel það velta á ýmsu. „Ég er með verðskrá sem einhverjum gæti þótt svolítið flókin en er í raun sáraeinföld. Það eru um 20 útgáfur af verði og fer eftir því hvort viðkomandi á í öðrum viðskiptum við mig.“

Þórlaug Ágústsdóttir, forstöðumaður netviðskipta hjá 365, segir fyrirtækið vera að kanna sinn rétt vegna málsins. “Við erum að skoða málið en rétt eins og önnur fyrirtæki verjum við okkar vörumerki fyrir misnotkun. Þetta er fínn brandari en hann hefur gengið of langt,“ segir Þórlaug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.