Lífið

Fyrsta útsendingin í fjögur ár

Sighvatur Jónsson og Ásgeir Páll Ágústsson eru gamlir vinir úr bransanum en höfðu aldrei unnið saman fyrr en um helgina.
Sighvatur Jónsson og Ásgeir Páll Ágústsson eru gamlir vinir úr bransanum en höfðu aldrei unnið saman fyrr en um helgina. MYND/valli

„Mig langaði að prófa að taka í útvarpið aftur og sá þessa möguleika um verslunarmannahelgina. Ég bauð því fram krafta mína,“ segir útvarpsmaðurinn gamalkunni, Sighvatur Jónsson, gjarnan þekktur úr fyrri tíð sem Hvati, en hann settist aftur fyrir framan hljóðnemann á Bylgjunni um helgina og stjórnaði vaktinni um verslunarmannahelgina ásamt góðvini sínum Ásgeiri Páli Ágústssyni. Fjögur ár eru liðin frá því að síðast heyrðist í Sighvati í útvarpinu en á sínum tíma starfaði hann á hinum ýmsu útvarpsstöðvum sem dagskrárgerðarmaður og tæknimaður. Hann hefur búið í Danmörku síðustu ár og stundað nám en starfar á fréttastofu Stöðvar 2 í sumar. „Þetta var orðinn dágóður tími en var fljótt að rifjast upp. Ég hafði ofsalega gaman af þessu,“ segir Sighvatur.

Hann og Ásgeir Páll voru í loftinu frá 12 til 17 á laugardag og sunnudag og frá 14 til 19 á mánudag, eða alls í 15 tíma. Verslunarmannahelgarvaktin er alræmd meðal útvarpsmanna en þeir félagar þóttu standa sig með miklum ágætum og var að minnsta kosti enginn skortur á gríni og glensi. „Það var vissulega mikið hlegið en það ber að athuga að það þarf ekki beint að kreista hláturinn upp úr Ásgeiri. Svo er hann með líka með svo ferlega smitandi hlátur,“ segir Sighvatur.

Ásgeir Páll ber Sighvati vel söguna og segir hann engu hafa gleymt. „Hvati hefur mikla hæfileika í þessum fræðum og fyrir utan að búa yfir þægilegri rödd og skemmtilegri nálgun þá er hann svo tæknilega klár. Við gömlu hundarnir höfðum því mjög gott af því að vinna saman um helgina og læra hvor af hinum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.