Lífið

Svala og Einar reka nýja búð

Svala segir búðarrekstur og tónlistina fara vel saman og notaði nýafstaðna tónleikaferð Steed Lord til að kaupa inn.
Svala segir búðarrekstur og tónlistina fara vel saman og notaði nýafstaðna tónleikaferð Steed Lord til að kaupa inn. MYND/Anton

Parið Svala Björgvinsdóttir og Einar Egilsson sér um rekstur Popp, nýrrar „second hand"-búðar sem verður opnuð í dag undir sama þaki og Spúútnik, Elvis og Rokk og rósir hafa sameinast undir. „Þetta er gjafavöruverslun, þó við séum með fatnað líka. Það er hægt að kaupa allt í búðinni, frá gardínunum til ljósakrónanna," sagði Svala.

Fatnaðurinn mun bera meiri keim af götumenningu en í hinum búðunum. „Við verðum með nýja strigaskó og nýjar fatalínur frá New York. Það sem er í búðinni núna er forsmekkurinn að því."

Popp er frumraun þeirra skötuhjúa í búðarrekstri. „Þetta er glænýtt fyrir okkur bæði," sagði Svala. „En þetta er ótrúlega gaman, það er frábært fólk að vinna hérna og mikil sköpunargleði í gangi." Á meðal samstarfsfólks þeirra Svölu og Einars er Krummi, bróðir Svölu, sem vinnur í Elvis.

„Það var líka ein ástæðan fyrir því að ég var til í þetta. Hann er búinn að vera að vinna hérna og finnst það frábært. Fullt af fólkinu sem vinnur hér er líka í músík og listum, eins og ég og Einar sem erum náttúrulega bæði í Steed Lord," sagði Svala. Henni hefur meira að segja tekist að samræma tónlistina og búðarreksturinn. „Við vorum að spila í New York og Miami um daginn og náðum að kaupa inn dót fyrir búðina í leiðinni. Þetta smellpassar saman," sagði hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.