Grunur leikur á að mörgum stórum trjám, sem rifin voru upp með rótum í Heiðmörk vegna óleyfilegra vatnsveituframkvæmda Kópavogsbæjar, hafi verið komið undan til gróðursetningar á einkalöndum.
Öll tré, sem rifin voru upp í Heiðmörk voru fjarlægð þaðan, í stað þess að búa sem best um þau á staðnum til gróðursetningar í Heiðmörk á ný. Þau virðast vera komin í einskonar svartamarkaðsdreyfingu. Skógarvörður Heiðmerkur og lögreglumenn fundu nokkra tugi trjáa í hrauni í Hafnarfirði.
Ólafur E. Ólafsson skógarvörður segir að búast megi við að einhverjum tréum hafi verið komið fyrir annars staðar.
Afdrif trjánna er aðeins einn angi þessa máls, en í kvöld ætlar stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur að ganga frá kæru á hendur Kópavogsbæ fyrir að ráðast í framkvæmdina án tilskilinna leyfa og verktakafyfirtækinu Klæðningu, meðal annars fyrir ósæmilega umgengni um athafnasvæðið.