Innlent

Segir stöðu Vegagerðarinnar jákvæða um 630 milljónir

MYND/Stöð 3

Staða Vegagerðarinnar gagnvart ríkisstjóði er jákvæð um 630 milljónir króna. Þetta segir Vegagerðin í tilkynningu sem send er vegna umræðu um Grímseyjarferjumálið og ásakana þess efnis að Vegagerðin hafi farið fram úr fjárheimildum sínum.

Ríkisendurskoðun benti á það fyrr í vikunni að í skýrslu um fjárreiður ríkisins kæmi fram að rekstrarútgjöld Vegagerðarinnar hefðu farið rúmlega 500 milljónir króna fram úr fjárheimildum í árslok 2006 og þar af væru 300 milljónir vegna kaupa og breytinga á hinni nýju Grímseyjarferju.

Bent er á í tilkynningu Vegagerðarinnar að stofnunin sé rekin á tveimur númerum, 10-211 og 10-212, í bókhaldi ríksins. Fyrri liðurinn snúi að mestu að rekstri og þjónustu og á þann lið falli allur rekstur ferjanna og stofnkostnaður þeirra. Á lið 10-212 falli hins vegar stofnkostnaður og viðhald, þar á meðal nýir vegir, jarðgöng og endurnýjun bundinna slitlaga.

„Sé einungis horft á lið 10-211 er halli á honum sem nemur rúmum 550 milljónum króna en hinsvegar er liður 10-212 jákvæður sem nemur tæplega 1.180 milljónum króna, þannig að í heild er Vegagerðin í plús sem nemur tæpum 630 milljónum króna," segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Vegagerðin segir að halli á lið 10-211 sé fyrst og fremst vegna ferja og þar af eru um 300 milljónir króna vegna Grímseyjarferju. Þar sé verið nota aðrar ónýttar fjárheimildir samkvæmt samkomulagi samgönguráðueytis, fjármálaráðuneytis og Vegagerðarinnar. Þá sé einnig halli vegna þess að ferðum ferja hafi verið fjölgað án þess að fjárveitingar hafi verið auknar til þess liðar.

Vegagerðin tekur fram að þótt hún nýti ónýttar fjárheimildir til að greiða fyrir Grímseyjarferju hafi það ekki leitt til neinna tafa á öðrum framkvæmdum í vegagerð né hafi verið hætt við fyrir fram ákveðnar framkvæmdir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×