Innlent

Ríkisútvarpið greiðir 200 þúsund krónur á mánuði fyrir bifreið útvarpsstjóra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Páll Magnússon útvarpsstjóri yfirgefur Audi glæsibifreiðina.
Páll Magnússon útvarpsstjóri yfirgefur Audi glæsibifreiðina. Mynd/ Stöð 2

Páll Magnússon útvarpsstjóri ekur um á rúmlega níu milljón króna Audi Q7 drossíu. Bílinn tók hann á rekstrarleigu í apríl á síðasta ári. Eftir að Ríkisútvarpinu var breytt í hlutafélag yfirtók fyrirtækið skuldbindingar vegna bílsins. Í dag greiðir Ríkisútvarpið 202 þúsund krónur á mánuði miðað við tveggja ára rekstraleigu.

Ómar Benediktsson, stjórnarformaður Ríkisútvarpsins ohf., sagði í samtali við Vísi að það væri álitamál hvort útvarpsstjóri ætti að aka um á svo dýrum bíl. Hann semji um ákveðin laun og bíllinn sé hluti af umsömdum kjörum. „Hann ók um á þessum bíl áður en Ríkisútvarpinu var breytt í hlutafélag. Það var svo hans ákvörðun að skipta ekki yfir í ódýrari bíl. Hann ræður því sjálfur hvort hann skiptir yfir í ódýrari bíl og fær þá hærri laun fyrir vikið" segir Ómar.

Ómar segist ekki muna hvað útvarpsstjóri hafi í laun en þau verði gefin upp á næsta aðalfundi Ríkisútvarpsins. „Það er ástæðulaust að halda þeim leyndum" segir Ómar.

„Þessi bíll var búinn að vera á mínum vegum í heilt ár áður en ég gerði samning við Ríkisútvarpið ohf. Það er smekksatriði á hverjum tíma hvernig maður ver þeim kaupum og kjörum sem um semst," segir Páll í samtali við Vísi. Páll kveðst vera nokkuð ánægður með bílinn. Hann telur ekki óeðlilegt að Ríkisútvarpið greiði af bílnum fyrir sig. „Það er svo sem algengt að forstjórar fyrirtækja séu á bílum sem fyrirtækin greiði fyrir," segir Páll.

Um upphæð eigin launa og tímalengd rekstrarleigunnar ber Páll við minnisleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×