Innlent

Eiga sömu rök við um nektardansstaði í borginni og í Kópavogi?

Borgarráð samþykkti í morgun að beina því til lögreglustjóra hvort þær ástæður sem lágu að baki sviptingu heimilda til nektarsýninga á Goldfinger eigi einnig við um nektardansstaði í Reykjavík. Tilmælin koma fram í umsögn borgarráðs varðandi rekstrarleyfi veitinga- og gististaða. Þá var lögreglustjóri minntur á mannréttindastefnu borgarinnar en þar stendur meðal annars að borgin einsetji sér að vinna gegn klámvæðingu og vændi. „Af þeim sökum er mikilvægt að sporna áfram gegn rekstri nektardansstaða í borginni," segir í stefnunni.

Margrét Sverrisdóttir, áheyrnarfulltrúi F-listans í borgarráði segist ánægð með að borgarráð skuli beina þessum tilmælum til lögreglustjórans. „Það var að mínum dómi ánægjulegt að borgarráð skyldi minna á mannréttindastefnu borgarinnar," segir hún. Margrét segir að því hafi verið beint til lögreglustjóra að hann meti sérstaklega hvort sömu ástæður og lágu að baki neikvæðrar umsagnar hans um heimild til nektardans í atvinnuskyni á veitingastaðnum Goldfinger í Kópavogi, leiði til þess hvort synja eigi einnig um slíka heimild, á nektardansstöðunum Vegas, Bóhem og Club Óðal.

Margrét segir að nú sé að sjá hvernig lögreglustjóri bregðist við þessari ábendingu borgarráðs. „Þetta er mjög stórt skref í þessum málum, og að mínum dómi kemur vilji borgarráðs skýrt fram í þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×