Íslenski boltinn

Aftaka hjá Blikum í Árbæ

Fyrirliðar Fylkis og Breiðabliks, Ólafur Stígsson og Arnar Grétarsson, eigast hér við í skallaeinvígi í Árbænum í gær.
Fyrirliðar Fylkis og Breiðabliks, Ólafur Stígsson og Arnar Grétarsson, eigast hér við í skallaeinvígi í Árbænum í gær. fréttablaðið/anton

Óhætt er að segja að fyrstu tíu mínútur leiks Fylkismanna og Breiðabliks hafi verið algerlega á skjön við það sem síðar kom. Fylkismenn byrjuðu betur og fór leikurinn að mestu fram á vallarhelmingi Blika. Þá fannst fyrirliðanum Arnari Grétarssyni, nóg komið og tók leikinn í sínar hendur.

Arnar virðist aldrei þurfa fleiri en eina snertingu til að koma boltanum á samherja. Nokkuð sem sjaldgæft er að sjá í efstu deild hér á landi.



Drifnir áfram af fyrirliðanum tóku leikmenn Breiðabliks heldur betur við sér. Sóknarkvartett liðsins; Nenad Zivanovic á vinstri vængnum, Gunnar Örn Jónsson á þeim hægri og þeir Prince Rajcomar og Kristinn Steindórsson í framlínunni, sköpuðu hvað eftir annað usla í vörn Fylkismanna.



Hægir varnarmenn Fylkis áttu ekki roð í sóknarmenn Blika. Kristinn og Prince leiddu miðverðina hvað eftir annað út úr stöðunum, á meðan Gunnar og Zivanovic léku sér að arfaslökum bakvörðunum. Guðni Rúnar Helgason hefur væntanlega þurft aspirín í hálfleik, svo illa fór Gunnar Örn með hann.



Gunnar Örn Jónsson skoraði fyrsta mark leiksins á fimmtándu mínútu, úr fyrsta markskoti Blika. Vann knöttinn á miðsvæðinu, óð upp völlinn, lét vaða nokkrum metrum fyrir utan teig og hafnaði boltinn neðst í markhorninu. Stórglæsilegt mark.



Blikar bættu síðan öðru marki við á tuttugustu og annarri mínútu. Kristinn Steindórsson ýtti þá boltanum yfir línuna eftir skottilraun Srdjan Gasic.

Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir þriðja markinu. Fylkismenn misstu boltann strax eftir að hafa tekið miðju, Kristinn fékk stungusendingu og afgreiddi boltann í markhornið. Þrjú núll eftir tuttugu og þrjár mínútur og leikurinn svo gott sem búinn.



Síðari hálfleikur var öllu daufari en sá fyrri. Fylkismenn gerðu tvær breytingar í hléinu; inn komu þeir Albert Ingason og Peter Gravesen. Blikar spiluðu þó áfram eins og sá sem valdið hefur, héldu boltanum vandræðalaust gegn máttlitlum Fylkismönnum. Kristinn Steindórsson fékk nokkur tækifæri til að ná sínu þriðja marki, en inn vildi boltinn ekki.



Gunnar Örn Hilmarsson, var besti maður vallarins í Árbænum í gærkvöldi þrátt fyrir að vera að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði í efstu deild. „Við höfum oft spilað vel í sumar en munurinn liggur í því að í kvöld nýttum við færin. Ég var ekkert sérlega stressaður fyrir leikinn og þegar fyrstu snertingarnar gengu vel, sá ég að þetta yrði minn dagur."



Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkismanna, var hreinskilinn í leikslok „Góð lið nýta sér það þegar andstæðingurinn er slakur. Ég sé enga ljósa punkta í okkar liði. Boltastrákarnir voru bestu menn Fylkis í dag, og þeir voru fengnir með fimm mínútna fyrirvara."



Blikar voru frábærir í gær og ekki veikur hlekkur í liðinu. Arnar Grétarsson sá til þess að boltinn gengi hratt milli manna og ungu strákarnir í framlínunni, þeir Kristinn og Gunnar, léku sér að varnarmönnum Fylkismanna.



Hjá Fylki stóð ekki steinn yfir steini. Helst að Christian Christiansen í framlínunni og markvörðurinn Fjalar Þorgeirsson geti borið höfuðið. Aðrir voru hreinlega ekki með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×