Lífið

Einhleypir Íslendingar stofna klúbb

Anna Magnea opnaði heimasíðuna soloklubburinn.com þar sem einhleypir geta komið saman og skemmt sér.
Anna Magnea opnaði heimasíðuna soloklubburinn.com þar sem einhleypir geta komið saman og skemmt sér.

„Þessi hugmynd kviknaði nú bara þegar ég var eitthvað að ráfa á netinu og komst í raun um að það er enginn félagsskapur fyrir einhleypa,“ segir Anna Magnea Harðardóttir, fertugur grunnskólakennari í Hofsstaðarskóla. Hún kom á fót vefsíðunni soloklubburinn.com fyrr á þessu ári þar sem einhleypum Íslendingum gafst kostur á að kynnast öðrum í svipaðri stöðu. Og vefsíðan hefur blómstrað frá fyrsta degi.

Félagar eru nú yfir sjötíu talsins á milli fertugs og fimmtugs og virkir hópar á borð útivistarklúbbinn fara þrisvar í viku í göngur. Auk þess stendur félagsskapurinn fyrir ferðum í leikhús og bíó og fer saman út að borða. Anna Magnea tekur hins vegar skýrt fram að félagsskapurinn er hvorki staður fyrir daður né einhver kynlífsklúbbur. „Þetta eru bara góðir vinir sem nenna ekki alltaf að vera þriðja hjólið undir giftu félögunum,“ segir Anna Magnea og skellir upp úr.

Yfir sjötíu manns eru virkir á vefsíðunni en innganga í félagið er háð nokkrum skilyrðum. Þannig þurfa áhugasamir að mæta á kaffihúsafund á sunnudegi til að gefa upp kennitölur sínar en Anna Magnea segir þetta eingöngu gert til að halda hvers kyns vitleysingum frá vefnum. „Hann er harðlæstur og fólk ræðir þar sín mál undir nafni,“ segir Anna.

Konur eru í miklum meirihluta í félagsskapnum og vill Anna meina að karlar séu svolítið hægari af stað en hún hvetur þá endilega til að hafa samband. „Við höfum rætt að hafa nokkurs konar stuðningsfulltrúa sem fólk getur haft samband við og mætt með á fundina,“ útskýrir Anna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.