Íslenski boltinn

Sjö marka leikur á Eskifirði

Sigurvin Ólafsson leikmaður FH mætti í gær yngri bróður sínum sem kom inn á sem varamaður í liði ÍBV.
Sigurvin Ólafsson leikmaður FH mætti í gær yngri bróður sínum sem kom inn á sem varamaður í liði ÍBV. Fréttablaðið/Daníel

Íslandsmeistarar FH, 1. deildarlið Fjölnis og 2. deildarlið Hauka komust í gær í átta liða úrslit VISA-bikars karla. Haukarnir slógu út úrvalsdeildarlið Fram í bráðabana í vítaspyrnurkeppni.



Fjölnir komst í 8 liða úrslitin í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 3-4 sigur á Fjarðarbyggð á Eskifirði. Grafarvogsbúar fengu óskabyrjun þegar Ólafur Páll Snorrason skoraði eftir aðeins 30 sekúndna leik. Fjölnismenn komust síðan bæði í 0-2, 1-3 og 2-4 en heimamenn náðu alltaf að minnka muninn. Pétur Georg Markan skoraði tvö mörk fyrir Fjölnismenn þar af fjórða markið sem að lokum skildi á milli liðanna. Fjarðabyggð vann deildarleik liðanna á dögunum 1-0 í Grafarvogi.



Íslandsmeistarar FH-inga unnu góðan 3-0 sigur í Eyjum. Vængbrotið 1. deildarllið ÍBV átti litla möguleika gegn Íslandsmeisturum FH þrátt fyrir að leika á heimavelli. Eyjamenn sýndu ágætis leik í fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að sækja. Staðan var 0-0 í hálfleik.



Það má segja að Eyjamenn hafi fært FH-ingum fyrsta markið á silfurfati þar sem Matthías Vilhjálmsson stal boltan af varnarmanni og lagði hann í netið framhjá markverði ÍBV. Eftir þetta þurftu Eyjamenn að bæta í sóknina og það kunna Íslandsmeistararnir vel að nýta sér og það voru þeir sem bættu við mörkum.



Haukar unnu Fram í bráðabana vítaspyrnukeppni á Ásvöllum í Hafnarfirði. Ásgeir Þór Ingólfsson kom 2. deildarliði Hauka í 1-0 gegn Fram eftir aðeins sjö mínútur en Igor Pesic náði að jafna leikinn með laglegu langskoti fyrir fyrir hlé. Fram komst yfir í framlengingunni en Haukar jöfnuðu og því varð að grípa til vítaspyrnukeppni þar sem Haukar unnu 4-3 eftir bráðabana.



Amir Mhica var hetja Haukanna því hann varði þrjár vítaspyrnur frá Frömurum sem hafa farið afar illa með vítin sín í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×