Íslenski boltinn

Nítján bikarsigrar í röð

Guðjón Þórðason hefur gert Skagamenn tvisvar að bikarmeisturum, 1993 og 1996. Hann vann bikarinn einnig með KR 1994 og 1995.
Guðjón Þórðason hefur gert Skagamenn tvisvar að bikarmeisturum, 1993 og 1996. Hann vann bikarinn einnig með KR 1994 og 1995. Fréttablaðið/ÞÖK

Skagamenn hefja keppni í VISA-bikar karla í kvöld þegar þeir fá Víkinga í heimsókn upp á Skaga. Skagamenn ættu að mæta til leiks fullir bjartsýni enda er Guðjón Þórðarson í brúnni. Guðjón hefur stýrt liði til sigurs í 19 bikarleikjum í röð á Íslandi en hann lið að bikarmeisturum fjögur ár í röð frá 1993 til 1996.

Þetta verður fyrsti bikarleikur Guðjóns hér á landi síðan í bikarúrslitaleiknum 1996 en íslenskt lið tapaði síðast bikarleik undir hans stjórn fyrir tæpum fimmtán árum þegar KA sló ÍA út úr undanúrslitum 7. ágúst 1992.

„Ég ætla alls ekki ljóstra því upp hvað er lykilinn á bak við þennan árangur í bikarnum því þá gætu aðrir farið að herma eftir þessu. Þessi uppskrift hefur dugað vel því ég vann bikarinn 1993, 1994, 1995 og 1996. Ég ætla síðan að vinna 2007," sagði Guðjón Þórðarson í samtali við Fréttablaðið en fyrsti bikarleikur hans hér á landi í tæp ellefu ár er á Akranesvelli í kvöld.

„Spennustigið er hærra í öllum bikarleiknum og bikarleikir eru öðruvísi. Það er meira undir og ef þú vinnur fjóra leiki þá vinnur þú bikarkeppnina," segir Guðjón sem ætlar ekki að gefa neinum upp hvernig hann fer að þessu. „Ég passa upp á bikaruppskriftina mína eins og sjáaldur augna minna," segir Guðjón en hann sér mikinn sjarma við bikarinn.

„Fegurðin við bikarkeppnin er þessi óvissa. Miðlungslið geta hitt á góðan dag og geta slegið út mikið mun sterkari lið. Það gefur öllum tækifæri," segir Guðjón en hann ætlar ekki að vanmeta mótherja kvöldsins þrátt fyrir misjafnt gengi. „Víkingur er með gott lið og þá að þeir hafi verið í smá erfiðleikum núna þá er það eitthvað sem þeir hrista af sér. Ég vona samt að þeir geri það ekki á morgun [í dag]," sagði Guðjón að lokum í léttum tón.

Það fara fjórir aðrir leikir fram í 16 liða úrslitunum í kvöld.

Fjarðabyggð tekur á móti Fjölni á Eskifjarðarvelli, KR og Valur mætast á KR-vellinum, Íslandsmeistarar FH ferðast til Eyja og mæta þar ÍBV á Hásteinsvelli og Framarar mæta Haukum á Ásvöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×